142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir greinargerðina fyrir málinu. Þetta er málefni sem er ástæða til að hafa fullan skilning á og við reyndum oft að fást við á síðasta kjörtímabili, það þyrfti betri upplýsingar til þess að ráðast í aðgerðir í skuldamálunum, en persónuverndarsjónarmið og hættan á því að brjóta gegn stjórnarskrá lýðveldisins kom kannski helst í veg fyrir að þar yrði farið lengra en gert var.

Þess vegna verður að spyrja, eins og framsögumaðurinn gerir, um almannahagsmuni sem hér eru annars vegar. Það kom mér á óvart við umfjöllun í nefndinni þar sem ég sat einn fund, að þar kom fram að nefnd ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í skuldamálum ætli að leggja fram tillögur um aðgerðir nú í nóvember án þess að hafa þessar upplýsingar á borðinu. Það virðist eiga að taka ákvörðun um aðgerðirnar án þess að hafa þær upplýsingar þannig að þetta sé eftiráupplýsingasöfnun. Þá spyr maður sig: Eru þessir ríku almannahagsmunir fyrir hendi ef ekki á að nota þessar upplýsingar til að taka sjálfar ákvarðanirnar í nóvember?

Hins vegar, um þann rökstuðning sem hv. þingmaður vísar til varðandi úrtakið, þá nota Norðmenn úrtök til að afla slíkra upplýsinga. Meiri hlutinn vísar til þess að jú, það þyrfti að vera stórt úrtak, 30 þúsund manns og það þyrfti lagaheimildir. En það eru engin önnur sjónarmið sem koma fram sem neinu skipta. Þess vegna virðist vera algjörlega augljóst að með stóru úrtaki, 30 þúsund heimila úrtaki, væri vissulega hægt að ná í meginatriðum sömu markmiðum, væru veittar lagaheimildir til þess. Þá er augljóslega skemur gengið á friðhelgi einkalífs og persónuvernd en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi þar sem gert er ráð fyrir því að safna öllum upplýsingum um alla.

Þá spyr maður sig hvort ekki sé augljóst á málinu eins og það er hér búið að það gangi of langt á réttindi þau sem einstaklingum eru tryggð í mannréttindasáttmála Evrópu og í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. (Forseti hringir.) Við þurfum að gæta að virðingu þingsins, því aldrei setur hana niður eins og þegar (Forseti hringir.) þingið gengur gegn stjórnarskrá lýðveldisins.