142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég beindi tveimur spurningum til hv. þingmanns og hvorugri var svarað eða reynt að svara.

Það er alveg rétt að um þetta voru flutt mál á síðasta kjörtímabili enda tók ég sérstaklega fram að við í Samfylkingunni höfum fullan skilning á mikilvægi þess að afla upplýsinga til að taka ákvarðanir um aðgerðir í málefnum skuldugra heimila. En það sem skýtur skökku við er að það virðist eiga að gera tillögur um aðgerðirnar núna í nóvember en að þær upplýsingar sem hér er verið að afla lagaheimilda fyrir munu ekki liggja fyrir fyrr en í vor. Þess vegna virðist upplýsinganna ekkert þörf til að taka ákvarðanir um aðgerðir. Maður spyr því um almannahagsmunina í þessu og maður spyr líka um af hverju er ekki farið í úrtaksaðferðina sem meiri hlutinn virðist vera að lýsa yfir að muni skila, ef í úrtakinu eru 30 þúsund heimili, álíka góðum árangri.

Að síðustu hlýt ég þá að spyrja hv. framsögumann: Hefur Persónuvernd lagt blessun sína yfir málið með þeim breytingum sem meiri hlutinn hefur gert? Liggur fyrir að stjórn Persónuverndar telji ekki að hér sé óhæfilega langt gengið í því að skerða persónufrelsi? Það er vandamálið sem við höfum alltaf verið að fást við.