142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Undanfarin missiri hefur umræðan um matvælaöryggi og matvælaframleiðslu verið mjög áberandi. Fréttir af samdrætti í framleiðslu á lamba- og nautgripakjöti hérlendis hafa vakið upp spurningar sem ég veit að margir leitast við að svara. Hvernig ætlum við að bregðast við þessari þróun? Erum við komin út á hættulega braut? Hvenær verður of seint að snúa við?

Þótt vandinn sé ekki mjög sjáanlegur í dag stefnum við hratt til verri vegar. Eins og fram kom á þingi samtaka norrænna bænda í ágúst sl. þurfa þjóðir að fara að hugsa til framtíðar. Framsóknarflokkurinn hefur mælt fyrir því að matvælaframleiðsla, og þar með landbúnaður á Íslandi, verði aukin til muna, einkum til að mæta auknum þörfum þjóðarinnar.

Aðrar þjóðir heimsins horfa fram á sama vandamál og því er hættulegt fyrir þjóð sem getur verið sjálfri sér nóg, ef vel er að verki staðið, að ætla að treysta á aðkomu annarra og þar með innflutning þegar kemur að matvælum og framleiðslu þeirra. Meðal þess sem kom fram á þingi norrænna bænda var að þjóðir þurfa að endurskipuleggja landbúnaðarstefnu sína á komandi árum til að mæta þeirri þörf matvælaöryggis sem eykst með hverjum degi. Það sem við eigum sameiginlegt með öðrum norrænum löndum er mikið magn af hreinu vatni, endurnýjanlegir orkugjafar auk alls þess landrýmis sem við búum yfir og getum með því haft forskot á önnur lönd.

Ísland ætti vitaskuld að nýta sér þessi tækifæri til að vera framarlega í matvælaframleiðslu. Stjórnmálamenn eiga að sjálfsögðu að koma þarna að og meðal annars skapa umhverfi þar sem fjárfesting í matvælaframleiðslu fyrir sitt eigið land er eftirsóknarverð.

Því ítreka ég það við þingið og landbúnaðarráðuneytið að tekið verði til við að móta stefnu um aukna matvælaframleiðslu sem hefur verið kallað eftir áður og greinilegt að þörf er á svo Ísland viti hvert eigi að stefna, hvernig við ætlum að komast að þeim markmiðum um leið og við girðum fyrir þann vanda sem mun skapast ef ekki verður gripið til aðgerða.