142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:02]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni vék utanríkisráðherra örlítið að því hve veikur pólitískur grundvöllur aðildarumsóknar hefði verið og ég tek heils hugar undir það. Fráfarandi ríkisstjórn var klofin í afstöðu sinni til aðildar og meiri hluti þingmanna var í raun andvígur aðild. Það kom mér satt að segja á óvart að Evrópusambandið skyldi taka góða og gilda aðildarumsókn sem byggði á svo lýðræðislega veiku umboði.

En hvað með afstöðu kjósenda? Eru þeir hlynntir aðild? Á tímabilinu frá ágúst 2006 til febrúar 2013 vann Capacent Gallup reglubundið skoðanakannanir fyrir Samtök iðnaðarins þar sem könnuð var afstaða almennings til ESB-aðildar. Með leyfi forseta:

„Á þessu sjö ára tímabili óx hlutfall þeirra sem eru andvígir aðild jafnt og þétt úr 33% í 56% á sama tíma og hlutfall aðildarsinna lækkaði úr 46% í 25%. Óákveðnum fækkaði úr 21% í 17%. Þeir sem kváðust mjög andvígir aðild voru árið 2013 orðnir 36% svarenda, eða þrefalt fleiri en þeir sem kváðust mjög hlynntir aðild.“

Í þrjú ár hafa aðrar viðhorfskannanir líka sýnt að meiri hluti kjósenda er andvígur aðild að Evrópusambandinu. Niðurstöður alþingiskosninganna styðja enn fremur við þessa niðurstöðu. Sá flokkur sem talaði eindregnast fyrir ESB-aðild fékk aðeins 13% atkvæða en flokkar sem töluðu eindregið gegn aðild hlutu 62% atkvæða.

Það er ljóst að meiri hluti þingmanna er nú andvígur aðild. Báðir stjórnarflokkarnir eru mjög andvígir aðild og flestir landsmenn eru það líka. Ég tel því nokkuð sjálfgefið að gera hlé á aðildarferlinu og að mínu mati væri heiðarlegast gagnvart ESB að afturkalla umsóknina formlega. Það ber að sjálfsögðu að virða sjónarmið þeirra sem eru hlynntir aðild, en reglur lýðræðisins ber einnig að virða. Minni hlutinn getur ekki átt lýðræðislegt tilkall til þess að staðið sé í kostnaðarsömu aðlögunarferli að ríkjabandalagi sem meiri hluti landsmanna vill ekki inngöngu í.

En hvers vegna hefur andstaða við aðild farið vaxandi? Er eitthvað sem bendir til að sú afstaða geti breyst í bráð?

Aðildarumsóknin var lögð fram í júlí árið 2009 í kjölfar mikils efnahagsáfalls. Því var haldið fram að aðild gæti klárast á 18 mánuðum og að hún mundi leysa efnahagsvanda þjóðarinnar. Það er ljóst að ESB-aðild reyndist ekki það skjól fyrir efnahagsáföllum sem menn ætluðu. Hvert aðildarríkið á fætur öðru hefur lent í vandræðum. Á Írlandi var skuldum fallinna banka velt yfir á heimilin í landinu. Ekki höfðu Írar neitt val um það.

Þrátt fyrir að bæði Grikkland og Kýpur væru með evruna brast þar á fjármagnsflótti. Setja þurfti fjármagnshöft á Kýpur. ESB hefur sett afar ströng skilyrði fyrir efnahagslegri aðstoð til aðildarríkja í vanda og niðurskurður hefur bitnað mjög harkalega á fátækum fjölskyldum. Atvinnuleysi í Grikklandi er nú 28%, hagkerfið hefur skroppið saman um fjórðung og þar er skortur á nauðsynlegustu lyfjum.

Vandi Kýpur er einnig mikill, þar krafðist ESB þess að lífeyrissjóðir og gaslindir í þjóðareigu væru settar að veði fyrir efnahagsaðstoð.

Þessi harka ESB gegn eigin aðildarríkjum í vanda hlýtur að vekja spurningar um það hvernig Íslandi hefði farnast sem aðildarríki í hruninu. Hefðum við þá getað varist því að skuldum fallinna banka yrði velt á heimilin? Hversu miklar kröfur hefði ESB gert um niðurskurð, sölu þjóðareigna eða veðsetningu í auðlindum þjóðarinnar? Hversu mikið af makrílkvóta hefði Brussel skammtað Íslandi? Hefði íslensk ferðaþjónusta vaxið eins og raun ber vitni ef hér væri evra? Hversu mikið væri atvinnuleysið? Svari hver fyrir sig.

Það mun líklega seint gleymast að fyrir EFTA-dómstólnum beitti Evrópusambandið sér sérstaklega fyrir því að íslenskir skattgreiðendur öxluðu skuldir einkarekinna fjármálafyrirtækja. Sem betur fer tapaði Evrópusambandið því máli.

Nú ríkir mikil óvissa um hvernig Evrópusambandið muni þróast á næstu árum. Rætt er um að einhver aðildarríki gætu þurft að yfirgefa myntbandalagið. Í Bretlandi verður þjóðaratkvæðagreiðsla haldin árið 2017 um hugsanlega útgöngu úr sambandinu. Leiðtogar aðildarríkja virðast alls ekki einhuga um hvort stefnt skuli að meiri eða minni miðstýringu.

Undir þessum kringumstæðum gæti fullbúinn aðildarsamningur harla lítið sagt um það hvernig aðild mun líta út eftir nokkur ár. Sambandið sjálft gæti verið gjörbreytt frá því sem nú er. Það hlýtur að vera grundvallarforsenda aðildarferlis að meiri hluti þjóðar og þings hafi vilja til aðildar. Það hlýtur líka að vera forsenda ákvörðunar um aðild að hægt sé að vita með einhverri vissu á hvaða leið sambandið er. Um þetta allt ríkir nú mikil óvissa.

Í ljósi þessara kringumstæðna er sú ákvörðun ríkisstjórnar að gera hlé á aðlögunarferlinu bæði lýðræðisleg og skynsamleg.