142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

48. mál
[18:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Hæstv. ráðherra vísaði í 9. og 10. gr. Ég var líka að hugsa um 8. gr. sem varðar heimild launagreiðanda til að greiða inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð með skuldabréfi óháð takmörkunum greinarinnar.

Ég man það svo ágætlega að þegar nefndin sem fór yfir starfsemi lífeyrissjóðanna skilaði sinni fjögurra binda skýrslu ræddi formaður nefndarinnar sérstaklega um að fara fyrst yfir 36. gr., fjárfestingargreinina, aðalgreinina hvað það varðar, og það þyrfti að gera af mikilli varkárni. Ég veit að við erum með kerfi í höndunum sem er gríðarlega stórt, sterkt og jákvætt fyrir íslenskt efnahagslíf en inni í því eru líka miklar skuldbindingar, skuldbindingar ríkisins, og ýmis vandkvæði og vandræði auk þess sem sætta þarf mismunandi hópa. Þess vegna segi ég það fyrir mig sem þingmann að mín skoðun er að það sé mjög óráðlegt að fara inn í þessa grein á þessum tímapunkti án þess að það sé gert í stærra samhengi. Lífeyrissjóðirnir, eins og hæstv. ráðherra bendir á, búa við erfitt fjárfestingarumhverfi í þeim höftum sem við erum með og eru með gríðarlega fjármuni sem þeir þurfa að koma í ávöxtun. Það þarf að sjálfsögðu að huga að þessu umhverfi þeirra en ég tel að við eigum að gefa okkur örlítið lengri tíma í þá vinnu en þrjá daga.