142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

40. mál
[19:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að í þessari þingsályktunartillögu sé svarið við spurningunni að finna að einhverju leyti. Það felst í því að búið er að hlaða svo miklum kvöðum á íbúðir, meðal annars í byggingarreglugerð. Hér hefur það ekki verið nefnt og hv. þingmaður kom ekki inn á það að það eru líka skattar á íbúðareigendur. Íbúðareigendur eru orðnir að skattstofni fyrir sveitarfélögin.

Mér telst svo til að ég borgi til Reykjavíkurborgar sem svari leigu á einu herbergi í minni íbúð. Það herbergi er þá bara farið. Spurningin er hvort sú skattlagning sé orðin of mikil og hvort allar kröfur sem koma frá Evrópusambandinu að einhverju leyti geri að verkum að framboð á íbúðum verður of lítið. Þetta er nefnilega ekki bara bundið við Ísland. Ég heyri fréttir af því frá Þýskalandi og Frakklandi að það er gífurlegur skortur á húsnæði og leigan allt of há til að fólk geti borgað hana með þeim tekjum sem það hefur. Það er sem sagt einhvers staðar mikill markaðsbrestur í þessu þegar venjulegt fólk, launafólk getur ekki leigt sér íbúð til að búa í. Það er þá eitthvað mikið að. Þá held ég að reglugerðargleðin sé orðin of mikil og kröfurnar varðandi íbúðir, til dæmis hversu stór íbúð á að vera og svo framvegis, séu orðnar of miklar. Inn í þetta blandast líka raunvextir og annað slíkt.

Ég held að menn þurfi að skoða sérstaklega skattlagningu sveitarfélaga og ríkisins í þessu. Í tillögunni er tekið á því, það á að undanskilja eina íbúð fjármagnstekjuskatti, þ.e. sú skattlagning hverfur að minnsta kosti af einni íbúð. Ég held að menn þurfi að skoða allt ferlið og velta fyrir sér hvernig stendur á því að það vill enginn fjárfesta í íbúð til að leigja þegar leigan er svona há.