142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að ítreka það sem ég sagði í ræðu minni áðan. Þær skemmri leiðir geta til dæmis verið að beita úrtaksaðferð við að afla þessara upplýsinga. Hún næði til þriðjungs þjóðarinnar en ekki til hinna 2/3 hlutanna, en þá væri augljóslega gengið skemur í málinu.

Það gæti falist í því að fólk gæti valið sig frá því að þessum upplýsingum væri safnað um það. Augljóslega virðist það ganga skemur og ætti ekki að koma í veg fyrir í meginatriðum að þeim markmiðum væri mætt sem eftir eru í kringum þetta mál fyrst ekki á að nota upplýsingarnar í aðgerðir.

Í þriðja lagi spyr maður sig hvort ekki mætti takmarka upplýsingasöfnunina við þá sem njóta þeirra aðgerða sem búið er að fara í. Og úr því að búið er að ákveða aðgerðirnar og til hverra þær ná má spyrja hvort ekki sé nægilegt að upplýsingaöflunin nái til þess hóps en að aðrir landsmenn sæti því ekki að sitja undir slíkri upplýsingasöfnun. Sá grundvallarmunur er á þessari upplýsingasöfnun og hinni sem rædd var á síðasta kjörtímabili að þá var verið að ræða um upplýsingasöfnun sem átti síðan að vera grundvöllur þess að ákveðið væri hverjir nytu aðgerða, hverjir hefðu mesta þörf fyrir aðstoð, hvert veita ætti fjármunum og í hve miklum mæli, þ.e. grundvöllur fyrir margvíslegar ákvarðanir sem varða almannahagsmuni, upphæðir, fjárhæð einstaklinga og fjárhæð ríkissjóðs en ekki upplýsingasöfnun eftir á um þegar ákveðnar aðgerðir eins og hér er um að ræða.