143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átti í fyrstu erfitt með að átta mig á um hvað hv. þingmaður var að spyrja en ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé að spyrja af hverju síðasta ríkisstjórn hafi ekki sett bankaskatt á þrotabúin. Ef það er það sem hv. þingmaður er að spyrja um, þ.e. um undanþáguna sem gerð var fyrir þrotabúin árið 2010 þegar bankaskatturinn var lagður á, þá var ástæðan fyrst og fremst sú að upplýsingar um stöðu búanna voru ekki nógu góðar á þeim tíma. Á þeim tíma var ekki alveg ljóst hver skuldaði hvað yfirleitt í þessu landi. Sjálfstæðismenn í efnahags- og skattanefnd voru á nefndarálitinu sem fjallaði um þessa undanþágu þannig að það var einfaldlega vegna þess sem ekki var farið út í þessar aðgerðir.

Nú þekki ég það ekki, virðulegi forseti, hvort það er tæknilega mögulegt að fara þessa leið en ég geri ráð fyrir að hæstv. ríkisstjórn sé búin að fara í gegnum það ferli allt saman. En ég get upplýst hv. þingmann um að hv. þingmenn Samfylkingarinnar ræddu einmitt um þessa leið í aðdraganda kosninga, að nú væri staðan þannig að upplýsingar um efnahag búanna væru orðnar nógu skýrar til þess að fara mætti út í slíka aðgerð ef það væri tæknilega mögulegt, og vil ég nefna hv. þm. Össur Skarphéðinsson í því sambandi.

Voru gerð hagstjórnarmistök á árunum 2007–2009? Ég vil benda hv. þingmanni á níu binda skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem fjallar um aðdraganda hrunsins og hvar ræturnar liggja helst að þeim hagstjórnarmistökum sem urðu til þess að fall bankanna varð svo hátt sem raun bar vitni, (Forseti hringir.) þær liggja í því sem gerðist fyrir árið 2007.