143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Sem starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tala ég hér fyrir fjárlagatillögum málaflokks sjávarútvegs, landbúnaðar og byggðamála. Heildargjöld þessara málaflokka eru um 19,5 milljarðar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið tók í heild sinni á sig 1,5% niðurskurðarkröfu sem nemur 115,1 millj. kr. í málaflokkum sjávarútvegs, landbúnaðar og byggðamála í samræmi við markmið sem ríkisstjórnin hefur sett í áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum.

Helstu áherslur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eru þessar: Málaflokkur eftirlitsstofnana tekur til Matvælastofnunar, Fiskistofu og Verðlagsstofu skiptaverðs. Matvælastofnun er með 1.287.800 millj. kr. fjárveitingu og hækkar um 141,6 millj. kr. að raungildi. Skýrist sú hækkun af þremur tilefnum. Í fyrsta lagi er 135,1 millj. kr. hækkun í samræmi við áætlun um ríkistekjur stofnunarinnar en breytingin er vegna verkefna sem fjármögnuð eru með lögbundinni gjaldtöku, svo sem matvælaeftirlit og eftirlit með matfiskeldi en auk þess hefur heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum aukist. Í öðru lagi af flutningi málaflokks um dýravelferð 9 millj. kr. frá Umhverfisstofnun og í þriðja lagi fellur niður tímabundið framlag upp á 2,5 millj. kr. vegna merkingar og rekjanleika í erfðabreyttum matvælum.

Fiskistofa er með 832,8 millj. kr. fjárveitingu og hækkar um 2,8 millj. kr. að raungildi frá fjárlögum yfirstandandi árs, annars vegar er hækkun um 14,9 millj. kr. vegna endurskoðaðrar áætlunar um ríkistekjur en gert er ráð fyrir að gjald fyrir leyfi til að veiða í atvinnuskyni hækki um 9,8 millj. kr. Gjald vegna eftirlits um borð í fiskiskipum hækkar um 4,1 millj. kr. og árlegt eftirlitsgjald með fiskeldisstöðvum hækkar um 1 millj. kr. Fiskistofa tekur á sig hagræðingu upp á 12,1 millj. kr. vegna ráðstafana til þess að draga úr ríkisútgjöldum.

Málaflokkurinn „Rannsóknir í þágu sjávarútvegs og landbúnaðar“ stendur nánast óbreyttur að raungildi frá fjárlögum yfirstandandi árs.

Allir fjárlagaliðir undir þessum málaflokki tóku á sig 1,5% hagræðingu í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að matvælarannsóknir fái 16 millj. kr. lækkun að raungildi frá fjárlögum 2013 sem skýrist meðal annars af niðurfellingu tímabundinnar fjárveitingar upp á 45 millj. kr. en 35 milljónir af þeim eru framlengdar til kaupa á matvælarannsóknum í eitt ár og 6 millj. kr. lækkun vegna aðhaldsaðgerða í ríkisútgjöldum.

Greiðslur vegna búvöruframleiðslu. Heildarfjárveiting til þess málaflokks hækkar um 30 millj. kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar verðlagsbreytingar sem nema 346 millj. kr. Breytingar á framlögum til málaflokksins grundvallast á breytingum sem gerðar voru á búvörusamningum á síðasta ári auk 30 millj. kr. hækkunar á framlagi til niðurgreiðslu á lýsingu í ylrækt.

Framlög og sjóðir í þágu landbúnaðar og dreifbýlis. Heildarfjárveiting til þessa málaflokks lækkar um tæpa 2 milljarða kr., þ.e. 1.994,8 milljónir, frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar verðlagsbreytingar en þær nema alls 13,4 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að 1.400 millj. kr. til fóðursjóðs falli niður í samræmi við lög um niðurfellingu sjóðsins. Auk þess er gert ráð fyrir að verðmiðlunargjöld landbúnaðarvara verði felld niður með lagabreytingum en við það fellur niður 405 millj. kr. fjárheimild liðarins. Við þessar breytingar munu tekjur og gjöld ríkissjóðs lækka um 1.805 millj. kr. og verður því afkoma ríkissjóðs óbreytt.

Jöfnun flutningskostnaðar lækkar um 196,5 millj. kr. og er ekki í fjárlögum 2014 en kemur inn í fjárlög 2015 aftur. Í fjárlögum 2012 var 200 millj. kr. framlag veitt vegna þessa, þ.e. til að standa straum af aðgerðum til flutningsjöfnunar í tengslum við iðnaðar- og vöruframleiðslu á landsbyggðinni, svo sem á Vestfjörðum. Lögin falla úr gildi um næstkomandi áramót. Samkvæmt núgildandi lögum er sjóðurinn um jöfnun flutningskostnaðar fjármagnaður á fjárlögum ári áður en greiðslur fara fram, þ.e. fjárveiting til verkefnisins á fjárlögum frá árinu 2012 er nýtt til útgreiðslu á árinu 2013. Af þessum sökum mun ekki þurfa fjárheimild fyrir árið 2014. Það er hins vegar augljóst að ef við ætlum að halda þessu áfram þarf að koma inn fjárheimild fyrir fjárlög 2015 þegar að því kemur. Allir eru sammála því.

Fleira ætla ég ekki að segja um þetta að sinni.