143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að heyra málflutning hæstv. ráðherra. Það er eins og fyrri ríkisstjórn hafi haft það á stefnuskrá sinni að skera niður í samfélaginu. (Utanrrh.: Hún gerði það.) Var það ekki út af því að við tókum við einu stykki hruni? Það er eins og hæstv. ráðherra vilji helst skrifa söguna upp á nýtt og skrifa eitthvert framtíðarland eins og hæstv. forsætisráðherra gerði hér um daginn. Veruleikinn er bara ekki þannig.

Fyrri ríkisstjórn tókst að koma þessari þjóð aftur á lappirnar og nú virðist sem hægri stjórn þessa lands ætli að brjóta það verk aftur niður. Ég held að menn ættu að muna hvernig málin voru á síðasta kjörtímabili og ekki gera lítið úr þeirri miklu vinnu sem var unnin þá. Nú taka menn við góðu búi en treysta sér ekki til þess að framlengja auðlegðarskatt, leggja áfram orkuskatt á stórfyrirtæki og hækka veiðigjöld á útgerð. Svo væla menn yfir því að það sé svo mikill halli á ríkissjóði og að þess vegna þurfi að gera þessa aðför að landsbyggðinni; sjúklingum og öðrum landsmönnum.

Menn búa sér til þennan vanda sjálfir. Það er enginn annar sem býr hann til, þetta er heimatilbúinn vandi, og ef menn hefðu haldið áfram á þeirri uppbyggingarbraut sem var farin af stað og átti að skila hallalausum fjárlögum 2014 með þessa tekjustofna værum við ekki stödd þar sem við erum stödd núna, að það eigi að halda áfram þessum gífurlega niðurskurði hjá öllum þeim stofnunum sem voru eðlilega búnar að fá nóg við þessar erfiðu aðstæður.

Ég minni bara hæstv. ráðherra á það að veiðigjöldin runnu til landsbyggðarinnar í gegnum fjárfestingaráætlun og í alls konar uppbyggingu og nýsköpunarverkefni sem nú er verið að skera niður. Menn skulu ekki gleyma því að þetta skilaði sér aftur til landsbyggðarinnar. Nú eru menn að brjóta þetta góða starf niður og ég held að menn þurfi aðeins að hugsa sinn gang í þessari vegferð.