143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Markmiðið þegar við tölum um að breyta starfsemi inn á við þá er hugmyndin að sjálfsögðu sú að nýta þá krafta sem þar eru í önnur verkefni. Miðað við þá stefnu sem var á síðasta kjörtímabili voru miklir kraftar settir í aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið sem er ekkert óeðlilegt. Nú beinum við kröftunum í aðrar áttir. Það kallar á að við skoðum aðeins hvernig skipulagið innan húss er. Það er það sem við erum að gera.

Rödd okkar þegar kemur að mannréttindum er mjög sterk og eftir því er tekið á alþjóðavettvangi þegar við tölum um mannréttindi. Stærri ríki eru kannski að einbeita sér að öðrum málum. Þess vegna höfum við lagt mikla áherslu á þetta. Það má ekki skilja eftir málaflokkinn mannréttindi eða jafnrétti.

Ég vil líka benda á að hluti af því að gera betur á þessu sviði byggir á þingsályktunartillögu sem hér hefur verið nefnd um að enduropna skrifstofu okkar í Strassborg. Við erum eina ríkið af 47 sem ekki er með fasta viðveru þar. Það hefur vakið athygli þar og svo sem þeirra þingmanna sem hafa farið þangað út að ekki er nógu vel að því staðið. Þingið í Strassborg er mjög mikilvægt þegar kemur að mannréttindum og slíku.

Mig langar að nefna, af því að hv. þingmaður spyr um skóla Sameinuðu þjóðanna, að þar held ég að við séum með tæki sem er jafnvel vanmetið. Við erum að gera mjög gott með því að þjálfa einstaklinga frá vanþróuðum löndum eða svokölluðum þróunarlöndum. Við skilum þeim frá okkur með betri og meiri þekkingu. Það er eftir þessu tekið. Mig minnir að um 2.500 manns hafi farið í gegnum þessa skóla, ég ætla að hafa smáfyrirvara á því. Það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við nýtum okkur þetta bæði til þess að hjálpa öðrum og eins til þess að halda því á lofti hverju við erum góð í.