143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu og stefnu ríkisstjórnarinnar birtist mikill metnaður fyrir hönd atvinnulífsins þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það er raunhæfur metnaður, það er metnaður sem byggir á raunhæfum aðgerðum til að bregðast við við mjög erfiðar aðstæður. Þær hugmyndir sem var farið með í gegnum þingið í svokallaðri fjárfestingaráætlun voru ekki byggðar á raunhæfum væntingum. Það sést náttúrlega best á afkomu ríkissjóðs á þessu ári að engin innstæða er fyrir slíku. Það er mjög mikilvægt þegar stjórnvöld marka stefnu og senda út skilaboð í þessum málaflokki að ekki sé verið að búa til falskar vonir, falskar væntingar. Ég tel að það sem þessi ríkisstjórn lætur frá sér fara, bæði með stefnuyfirlýsingu sinni og nú í fjárlagafrumvarpinu, byggi á einhverju sem er raunhæft.

Tækifæri okkar eru gríðarlega mikil í öllum samanburði þegar kemur að iðnaðaruppbyggingu á fjölbreyttum grunni. Starfsemin hefur aukist mikið í iðnaði hér. Íslensk iðnfyrirtæki eru farin að vinna á alþjóðavettvangi, ekki bara í kringum sjávarútveg heldur einnig í tengslum við ál og nú jafnvel olíuiðnað og jarðvarma. Ég kom í fyrirtæki suður í Hafnarfirði þar sem var verið að búa til stýrikerfi fyrir stórar jarðvarmaveitur í Afríku. Þetta byggist auðvitað allt á þeirri grunnatvinnugrein okkar sem orkufrekur iðnaður er, eins og í kringum álverin og í kringum sjávarútveginn.

Það töpuðust því miður mikil tækifæri á síðasta kjörtímabili þegar kom að þessum málaflokki. Stefna stjórnvalda var þannig að ekki var verið að horfa til þess að efla okkur á þessum vettvangi og því er mjög mikilvægt að núna sé spýtt í af einhverri alvöru. Það er mikilvægt að fá niðurstöðu í stór mál eins og Helguvík og setja síðan aukinn kraft í uppbyggingu í orkufrekum iðnaði og auka þar með fjölbreytnina í íslensku atvinnulífi ásamt því að styðja við, eins og hefur verið farið vel yfir, nýsköpun og sprotafyrirtæki til að byggja hér upp fjölbreyttara atvinnulíf. Hvatinn og keyrslan í kringum það kemur oft í gegnum þessar grunnatvinnugreinar okkar, þaðan getur fjármagn og verkþekking og annað flætt til þess að byggja upp ný fyrirtæki.

Við erum með öfluga ferðaþjónustu. Við höfum séð ánægjulega uppbyggingu þar á síðustu árum. Fjárfestingar eru að aukast mikið. Við sjáum hvað er að gerast núna í kringum Hörpu. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur verið dálítið til umfjöllunar. Þar er verið að innleiða nýtt innheimtukerfi sem mun (Forseti hringir.) styrkja okkur enn frekar á þessum vettvangi. Ég tel reyndar að þegar kemur að úthlutun úr þeim sjóði eigum við líka að líta til öryggismála varðandi ferðamenn. Við höfum öll orðið vör við það með vaxandi ferðamannastraumi að tryggja þarf öryggi ferðamanna sem koma til Íslands.