143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Já, það stendur til að gera ákveðnar breytingar er lúta að málefnum hælisleitenda á Íslandi. Til upplýsingar fyrir þingið þá er kostnaður ríkissjóðs á yfirstandandi ári vegna þessara mála 555 milljónir. Þegar talað er um aukningu í því frumvarpi sem nú liggur fyrir þá miðast það því ekki við þá aukningu sem sannarlega hefur orðið í málaflokknum. Innanríkisráðherrar, bæði sú sem hér stendur og sá sem á undan var, hafa ítrekað þurft að fara til ríkisstjórnar til að óska eftir auknu framlagi.

Við höfum leitað til Noregs og ég fór og hitti norska dómsmálaráðherrann, afar mæta konu, sem fór yfir það með mér mjög nákvæmlega hvernig Norðmenn hafa verið að taka á málinu. Það er athyglisvert að það er alveg sama við hvern maður ræðir, þ.e. í þeim löndum sem eru talin standa sig hvað best í þessum málaflokki, að þá vísa allir til Noregs. Það er vegna þess að Norðmönnum hefur tekist að sinna mjög vel þeim sem þurfa á pólitísku hæli að halda og eiga rétt á þeirri aðstoð og þeim réttindum sem það felur í sér. Þeir hafa gert það með ákveðnum verklagsreglum sem er svokölluð 48 klukkustunda regla sem lýtur að því að viðkomandi fær svar innan þess tíma um hvort hægt sé að vinna frekar með umsóknina eða hvort svarið sé nei.

Við erum að skoða þessa hröðu málsmeðferð og hraðari málsmeðferð með Útlendingastofnun en einnig höfum við rætt málið við Mannréttindaskrifstofuna, við Rauða krossinn og fleiri aðila sem að því koma. Við teljum að hægt sé að ná betri árangri í málaflokknum, sinna betur þeim sem þurfa á aðstoð okkar að halda og einnig að ná betri hagræðingu og betri nýtingu fjármagns, sem er auðvitað verkefnið.

Ég á von á því að geta kynnt þetta verkefni betur á næstu vikum. Það lítur út fyrir að við þurfum ákveðnar lagabreytingar til þess að innleiða þessar verklagsreglur og frumvarp þess efnis verður lagt fram hér á þinginu í haust.