143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:25]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu hennar og spurningar.

Það hefur alltaf legið fyrir, og það hefur komið alveg skýrt fram í orðum forustumanna ríkisstjórnarinnar sem og stuðningsmanna hennar, að það stendur ekki til að láta ríkissjóð greiða fyrir skuldaleiðréttinguna. Það hefur margítrekað komið fram og er náttúrlega ástæðan fyrir því að það kemur ekki fram í reikningum ríkisins.

Varðandi bótakerfið þá fagna ég því að þingmaðurinn skuli koma inn á þann þátt. Ég tel að mjög mikilvægt sé að huga að breytingunum á húsnæðisbótum á þann máta að við skoðum málið meira heildstætt. Ég veit að það hljómar eins og einhver klisja en þær tillögur sem hafa komið fram hingað til hafa fyrst og fremst snúið að því hvernig við getum reynt að hækka húsaleigubæturnar og breytingarnar sem snúa að velferðarráðuneytinu meðan vinnan sem snýr að breytingum á vaxtabótakerfinu yfir í hinar sameiginlegu húsnæðisbætur virðist vera komin skemmra á veg hvað varðar tillögugerð. Ég tel að með skuldaleiðréttingunni muni skapast svigrúm til að jafna það út, sem ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um að sé mjög mikilvægt, þannig að að mínu mati tengist það líka áformum ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttinguna.

Vaxtabætur halda sér á milli ára hvað varðar upphæðir og reiknireglur. Hins vegar er gert ráð fyrir því að vegna þess að fólk mun hafa það betra og skuldir munu lækka verði kostnaðurinn ekki jafn mikill. Það hefur líka sýnt sig á þessu ári að fjárheimildir voru (Forseti hringir.) umfram það sem þurfti. Ég fæ kannski að koma að Íbúðalánasjóði í seinni ræðu.