143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Þá liggur það alla vega fyrir að það var ekki Framsóknarflokkurinn sem kom í veg fyrir að stimpilgjöldum yrðu að öllu aflétt. Það finnst mér vera mikilvægt. Það var hægt að draga þá ályktun af orðum hæstv. ráðherra þegar hann sagði að aðrar áherslur hefðu orðið við myndun ríkisstjórnarinnar, það hefði verið fyrirstaða hjá samstarfsflokknum. Mér finnst gott að heyra að svo var ekki.

Frú forseti. Það breytir ekki hinu að mér finnst það heldur aumt af hv. þingmönnum Framsóknarflokksins að berjast ekki fyrir því að afnema stimpilgjöldin að öllu. Þeir háðu kosningabaráttu sína að verulegu leyti fyrir fólk sem var í þrengingum vegna húsnæðiskaupa og yfirlýsingar þeirra voru algerlega skýrar. Hæstv. forsætisráðherra sagði hér á sumarþingi, með leyfi forseta:

„Einnig er miðað að því að afnema stimpilgjöld vegna húsnæðiskaupa einstaklinga til eigin nota og fella niður eða aðstoða við fjármögnun kostnaðar vegna gjaldþrotaskipta.“

Bara helmingurinn af þessu liggur eftir og það er útfært með þannig hætti að þeir, sem ég tel að allir hefðu viljað sjá hjálpað, unga fólkið sem er að hefja sína lífsgöngu saman, kemur verr út. Ég verð að segja, frú forseti, að ég er undrandi á því að þetta skuli vera niðurstaðan. Án þess að ég vilji halda því fram að þetta sé einhver handarbaksvinna af hálfu hinna ágætu starfsmanna fjármálaráðuneytisins eða hæstv. fjármálaráðherra þá verð ég samt að segja að umræðan um þetta tiltekna frumvarp bendir til þess að það hafi ekki verið hugsað til þrautar og þá kannski sérstaklega vegna þess að ég dreg það í efa að þetta hafi verið tilgangur hæstv. fjármálaráðherra sem er þó niðurstaðan.