143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

fæðingarorlofssjóður.

[10:54]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný hv. þingmanni fyrir. Þau frumvörp sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram eru ríkisstjórnarmál, njóta stuðnings ríkisstjórnarinnar og hafa farið í gegnum stjórnarflokkana. Þær tillögur sem þar koma fram endurspegla einmitt áherslur og framtíðarsýn stjórnarflokkanna, þ.e. að taka til baka skerðingarnar til að við getum tryggt það að við náum markmiðum laganna. Sú ákvörðun sem var tekin af Alþingi mun ekki styðja við markmið um að börn njóti umgengni við báða foreldra. Við höfum séð þá þróun að karlar hafa síður tekið fæðingarorlofið.

Jafnframt má benda á það að sú breyting sem var farið í var ekki fjármögnuð og þegar hún væri komin að fullu til framkvæmda værum við að tala um kostnað upp á hátt í 10 milljarða. Ég er sammála því að þá er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við setjumst niður með aðilum vinnumarkaðarins og ræðum hvort þeir séu (Forseti hringir.) tilbúnir að kosta því til.