143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[11:31]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni og þingflokki Samfylkingarinnar fyrir þessa tillögu. Ég lít svo á að tillagan sé raunar framlag þingflokksins í þá vinnu sem er í gangi núna um mótun framtíðarskipanar húsnæðismála á Íslandi.

Eins og hv. þingmaður fór í gegnum í ræðu sinni eru ákveðnir þættir þarna undir sem þegar er búið að setja af stað vinnu í. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefur þegar sett af stað vinnu varðandi endurskoðun á byggingarreglugerð. Ég hef hvatt hann til þess að aukinn sveigjanleiki verði í byggingarreglugerð þannig að hægt sé að tryggja fólki með mismunandi tekjur og sem býr við mismunandi aðstæður í lífi sínu val og öryggi í húsnæðismálum.

Það sama hef ég síðan sjálf gert varðandi þann þátt sem snýr að Íbúðalánasjóði. Nánast frá því að ég tók sæti sem ráðherra og gekk inn í velferðarráðuneytið hef ég verið að þrýsta á Íbúðalánasjóð að koma þeim eignum sem sjóðurinn á annaðhvort í leigu eða í sölu. Sjóðurinn hefur lagt sig fram um að gera það og meðal annars hefur verið tekin ákvörðun um að setja ákveðið fjármagn í að lagfæra þær íbúðir sem voru komnar í gegnum fullnustu en eru í þess háttar ástandi að hvorki er hægt að leigja þær né selja. Það er verkefnið núna hjá sjóðnum að tryggja að hægt sé að koma íbúðum í leigu eins fljótt og hægt er.

Á móti kemur náttúrlega alltaf sú krafa, ekki bara héðan frá Alþingi heldur líka frá alþjóðlegum stofnunum á grundvelli samninga við ESA um að við séum ekki með útleigu hjá Íbúðalánasjóði að skaða markaðsaðstæður á einstökum svæðum og þar sem Íbúðalánasjóður á mjög stóran hluta af því húsnæði sem er til staðar á ákveðnum svæðum vegna erfiðra aðstæðna þar.

Þetta er eitthvað sem ég hef lagt mjög mikla áherslu á og hef komið mjög skýrt á framfæri. Það er raunar ánægjulegt að geta líka vísað til þess að hér eru fleiri sem styðja við það verkefni að tryggja að svo verði.

Síðan veit ég og hef tekið það upp við hæstv. fjármálaráðherra að áhugi er á því að skoða skattlagningu á leigutekjum. Ég vil hins vegar nefna að í tengslum við breytingar á almannatryggingakerfinu hefur áherslan verið, og var við heildarendurskoðunina, að reyna að einfalda kerfið. Hér er hins vegar verið að leggja til ákveðna breytingu þar sem menn mundu raunar stíga skrefið í hina áttina og fara að undanskilja skilgreindar tekjur frá skatti og ætti í raun ekki að skerða þær greiðslur sem ellilífeyrisþegar væru að fá frá almannatryggingum.

Það hefur verið mjög áhugavert fyrir mig að lesa nýlega skýrslu sem var unnin í Svíþjóð í fyrra um hvað sé hægt að gera til að byggja enn frekar upp leigumarkaðinn þar. Svíar hafa staðið frammi fyrir kannski sambærilegu vandamáli og við, þrátt fyrir að vera með mun hærra hlutfall á leiguíbúðum. Á ákveðnum þéttbýlissvæðum, Stokkhólmi og Gautaborg, er mikill skortur á leiguhúsnæði og mikil eftirspurn og þeir hafa verið að skoða hvernig hægt sé að losa um regluverkið. Þeir hafa sérstaklega velt fyrir sér fyrirkomulaginu í Þýskalandi. Þar væri mjög algengt að menn, alla vega þeir sem byggðu sitt eigið húsnæði væru með eina litla íbúð sem þeir leigðu út til að fjármagna kaupin á eign og síðan væri sérstakur rammi utan um það sem sneri að skattkerfinu.

Ég hef heyrt frá hæstv. fjármálaráðherra að þetta sé eitthvað sem hann sé tilbúinn að skoða. Ég hef svo sem nefnt það líka að hann er almennt tilbúinn að skoða allt sem snýr að lækkun skatta þannig að hann undanskilur þetta ekki.

Síðan verð ég að segja um hugmyndirnar um stofnstyrkina og þær athugasemdir sem komu m.a. frá lífeyrissjóðunum að þetta er kannski grundvallarástæðan fyrir því að ég tel að það sé svo mikilvægt að þessar hugmyndir fari frekar sem framlag, þá í gegnum fulltrúa þingflokks Samfylkingarinnar sem á þar sæti, inn í vinnu samvinnuhóps um framtíðarskipan húsnæðismála frekar en að Alþingi álykti sérstaklega um þetta núna, þó að það gæti verið tímabært síðar. Þarna komum við að því sem er grundvallaratriði varðandi húsnæðiskerfið okkar: Hvernig viljum við hátta fjármögnun á kerfinu? Talað hefur verið um að lífeyrissjóðirnir ættu að koma beint að því að stofna og reka leigufélög. Ég hef fundið í samtölum mínum við lífeyrissjóðina að þó að menn hafi verið að skoða þetta og hafi látið kanna arðsemi og ávöxtun af þess háttar verkefni hafa þeir verið hikandi við að verða rekstraraðilar að einhverju leyti að leigufélögum. Þeir hafa talið að það væri meira í anda stefnu lífeyrissjóðanna að fjármagna slík verkefni.

Þess vegna er svo brýnt að vinnu verði lokið og tillögur komi til Alþingis um það hvernig við viljum hafa heildarrammann um fjármögnun á húsnæði á Íslandi. Við höfum verið mjög upptekin að mínu mati á undanförnum árum og jafnvel áratugum af þeim þætti sem snýr að ríkinu, við köllum það lög um húsnæðismál og eru lög sem varða Íbúðalánasjóð. Á sama tíma höfum við alls ekki hugað jafn mikið að lagaramma fyrir aðra sem lána til kaupa eða byggingar á húsnæði. Ég tel að við þurfum að sameinast um að setja skýran lagaramma utan um alla þá sem hafa í hyggju að fjármagna húsnæði, óháð því hvort um er að ræða séreign eða leigufélög.

Það er líka mjög mikilvægt að skoða rammann sem snýr að alþjóðlegum skuldbindingum okkar gagnvart ESA og það er eitt af því sem ég hef hvatt og mun hvetja samvinnuhóp um framtíðarskipan húsnæðismála til að gera. Ég veit að eitt sem Reykjavíkurborg hefur verið að láta skoða fyrir sig sérstaklega er hvernig hið opinbera geti stutt beint við þessa tegund af starfsemi, við leigufélög, án þess að líta megi á það sem beinan ríkisstuðning eða stuðning frá hinu opinbera. Þá hafa menn bent á leigufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni en það gæti þá líka skaðað samkeppnisstöðu annarra á markaðnum.

Síðan er náttúrlega stóra málið í þessu: Hvernig ætlum við að ná niður kostnaði við fjármagnið, hvernig gerum við það? Það er talað um að við getum fundið leiðir til þess að ná niður kostnaði við lóðir þannig að sveitarfélög tryggi nægilegt framboð á lóðum og það sé ákvörðun sveitarfélaga hvort þau rukki fyrir lóðir eða ekki, fyrir utan þann kostnað sem þau bera af lóðunum. Við getum gripið til aðgerða til að ná niður kostnaði við bygginguna sjálfa og þar á meðal skiptir náttúrlega byggingarreglugerðin verulega miklu máli. En það er líka annað sem hæstv. fjármálaráðherra hefur áhuga á að skoða og það eru vörugjöldin almennt, þau gjöld sem við leggjum á innfluttar vörur. Þau geta skipt máli líka því að mikið af því hráefni sem við notum til byggingar húsnæðis er innflutt.

Síðan er það enn og aftur fjármagnskostnaðurinn. Þar hafa menn bent á að t.d. ávöxtunarkrafan á það fjármagn sem er til staðar á Íslandi, sem eru peningarnir sem við erum með í lífeyrissjóðunum okkar, getur skipt verulega miklu máli við ákvarðanir um þau kjör sem bjóðast, því að það eru lífeyrissjóðirnir sem fyrst og fremst fjármagna húsnæði á Íslandi.

Mér finnst þetta vera mjög áhugaverðar tillögur og ég vil gjarnan að þær fari inn í þá vinnu sem er þegar farin af stað. Þá mun mikill fjöldi sem kemur að þeirri vinnu geta tekið afstöðu til þess hvort rétt sé að fara þessa leið og í framhaldinu kæmu þá útfærslur. Við getum verið sammála um grunnleiðina en við getum síðan haft skiptar skoðanir á því hvernig við nákvæmlega nálgumst markmiðið sjálft.

Ég þakka kærlega fyrir þetta og líka að finna þann samhug sem er innan Alþingis um að við þurfum að gera breytingar á húsnæðiskerfi okkar.