143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir málið og greinargerð hans fyrir því hér. Ég þakka einnig fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, fyrir hans atbeina að þessum mikilvæga samningi sem ég held að ótvírætt sé og óumdeilt að geti falið í sér umtalsverð tækifæri fyrir okkur Íslendinga, meðal annars í aðgangi að þeim stóra og vaxandi markaði sem hér er annars vegar.

Málið var til umfjöllunar í utanríkismálanefnd eins og hæstv. ráðherra gat um á síðasta kjörtímabili og kom ég þar ásamt ráðherranum að umfjöllun málsins. Það eru kannski helst þeir þættir sem lúta að samningum sem tengjast þessum fríverslunarsamningi sem ég vildi aðeins taka upp og spyrja ráðherrann út í. Um leið og í þessum samningi felast mikil tækifæri er full ástæða til þess, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir orðaði það áðan, að stíga varlega til jarðar. Um er að ræða gríðarlega stórt og öflugt ríki og sannarlega eru þess dæmi hér í kringum okkur, meðal annars í Grænlandi nú nýlega, þar sem gerðar voru miklar breytingar á vinnulöggjöf, að ástæða er til að hafa áhyggjur af þróun í átt til félagslegra undirboða og til þess að verið væri að opna norrænan vinnumarkað fyrir hlutum sem við viljum ekki sjá. Ég held að þverpólitísk samstaða sé um það hér að það eru engar slíkar breytingar sem við viljum sjá í framhaldi af þessu, hvar í flokki svo sem menn standa — og bara mikilvægt að um það sé vel búið. Það var undirstrikað í viðræðunum að Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna væri grundvallarsáttmáli að okkar áliti og áhersla lögð á þátt jafnréttismála en ekki síður á þann samning sem snýr að vinnuvernd og vinnurétti.

Í yfirlýsingu fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, í framhaldi af undirritun samningsins, kom fram að með samningnum um vinnuvernd og vinnurétt, sem unnið yrði að í framhaldinu, yrði tryggt að engar breytingar yrðu með samningnum á aðgangi kínversks vinnuafls að íslenskum markaði og það yrði gert í nánu samráði við íslenska verkalýðshreyfingu. Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir þeirri vinnu og þeirri samningsgerð og þeirri aðkomu sem íslensk verkalýðshreyfing hefur haft að vinnunni við málið frá undirrituninni 15. apríl sl.

Ég vildi síðan nota tækifærið, vegna þess að hér var nefndur áðan fríverslunarsamningur sem unnið hefur verið að í tengslum við Hvíta-Rússland og Kasakstan, og taka undir þann fyrirvara sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi í tengslum við þá vinnu. Það er sannarlega meginsjónarmið mitt, eins og margra annarra hv. þingmanna, að vísust leiðin til að vinna mannréttindum framgang og stuðla að efnahagslegum framförum í löndum sem þess þurfa mjög með sé frjáls verslun og viðskipti. Það á við í tilfelli Kína þar sem ég er algerlega sannfærður um að frjáls verslun og viðskipti hafa á mörgum undanförnum árum mjög bætt lífskjör þar í landi og aukið mannréttindi frá því sem áður var þó að sannarlega sé enn um langan veg að fara og full ástæða fyrir okkur til að knýja á um það í hvert eitt sinn sem við fáum tækifæri til.

Það eru hins vegar einstaka ríki sem háttar öðruvísi til um, þar sem öðrum aðferðum verður að beita. Við munum eftir Suður-Afríku á sama tíma — og ég held að það þurfi alveg sérstakrar umræðu við ef í framtíðinni kemur til kasta þingsins í tengslum við einhvers konar fríverslunargjörninga við Hvíta-Rússland. Ástæða er til að velta því mjög rækilega fyrir sér hvort slíkir samningar við það einræðisríki yrðu ekki frekar til þess fallnir að næra einræðisvélina sem þar ræður ríkjum hér í miðri Evrópu en hitt að brjóta upp höft og auka mannréttindi og lífsgæði þar í landi.