143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[15:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þeir sem dansa með ljónum eru stundum ljón eða verða það.

Staðan er einfaldlega þannig að við höfum fjóra möguleika gagnvart tengslum okkar við ESB. Í fyrsta lagi er það óbreyttur EES-samningur. Í öðru lagi er það það sem hv. þingmaður talar um, endurskoðaður EES-samningur, og ég tel engar líkur á því að hægt sé að endurskoða þann samning svo einhverju nemi vegna þess að ESB er einfaldlega mótfallið því, en það kemur þá í ljós. Þá ætti hv. þingmaður að fylgja því eftir, t.d. með þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin beiti sé fyrir endurskoðun á EES-samningnum. Það verður ekki ferðalag til mikils fjár en í öllu falli hefur hv. þingmaður þá skoðun og ég virði hana.

Í þriðja lagi er það að ganga í Evrópusambandið og það er sú skoðun sem ég fylgi og get svo sem rökstutt það í töluvert lengra máli. Síðasti valkosturinn er valkostur sem ég taldi að sum skoðanasystkin hv. þingmanns fylgdu, það er tvíhliða samningur svipað og Sviss hefur. Hér er með okkur þingmaður, hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem vill það. Ég tel að það sé algjörlega útilokað. Ég tel af reynslu minni, bæði af EFTA, séð þaðan frá, og Evrópusambandinu, að þeir muni aldrei gera slíka samninga aftur. Þeir vilja losna ef þeir geta við þessa tvíhliða samninga. Þeir eru í dag 72 milli Sviss og Evrópusambandsins, það er mjög erfitt að halda þeim úti þannig að sá kostur er mjög erfiður.

Þess vegna held ég að eini raunhæfi valkosturinn sé að ganga í Evrópusambandið eða að verða ella að útnára sem er ekki í neinum sérstökum viðskiptalegum samböndum við Evrópu, sem er okkar mikilvægasta svæði. Það er það sem Íslendingar gætu lent í ef hv. þingmaður fengi að ráða.

Ég spyr hv. þingmann, ef hann vill láta gera úttekt á því hvað ESS hefur litað samfélag okkar og lagasetningu: Af hverju leggur hann ekki fram þingsályktunartillögu um að slík úttekt verði gerð, að farið verði í það með svipuðum hætti og Norðmenn gerðu í hinni frægu Sejersted-skýrslu?