143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[15:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er mér auðvitað gleðiefni að hv. þingmaður kveðst hafa fyrirgefið mér en þá veit hann að ein af grundvallarreglum kristinnar trúar er að forsenda sannrar fyrirgefningar er iðrun viðkomandi og ég hef ekki iðrast þess sem ég sagði. [Hlátur í þingsal.] Ég tel að hv. þingmanni verði vel fundinn staður á Evrópuþinginu til að berjast fyrir hagsmunum Íslendinga. Þó verð ég að segja að það dró blik efa yfir huga minn undir ræðu hans þegar það rann upp fyrir mér að þrátt fyrir þessa baráttugleði og þessa bardagahæfni hefur hann engu náð gagnvart sínum eigin flokki. Það er alveg ljóst að þó hann hafi farið á eigin kostnað til Strassborgar og ég veit ekki hvert, þá breytir það engu um það að hans eigin flokkur er að fara að troða hér í gegn þeirri tilskipun sem hann telur mestu afglöp seinni tíma og gott ef hann jafnaði því ekki við Icesave líka.

Hins vegar verð ég að trúa hv. þingmanni fyrir því að hann virðist ekki hafa fylgst mikið með þróun Evrópusambandsins. Ég er alveg sammála honum um að það er ekki lýðræðislegt samband. Lýðræðið innan þess hefur aukist en það hefur verið á kostnað okkar, EFTA-þjóðanna sem eru aðilar að EES. Dæmi sem hv. þingmaður tók var af samtali sínu við mann sem tengdist sjávarútvegsmálum fyrir töluvert löngu síðan, sagði hann. En fyrir töluvert löngu urðu breytingar. Meginbreytingar sem orðið hafa eru þannig að það er jú rétt að við getum komið að mótun tilskipana og gerða nálægt upphafi þeirra hjá framkvæmdastjórninni, en ef það verður ágreiningur í millum ráðherraráðs og þingsins er búið að bæta við völd þingsins. Ef sá ágreiningur er ekki leystur í sáttaferli þá ræður Evrópuþingið.

Hv. þingmaður ætti t.d. að skoða afdrif endurskoðunar á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB sem er nýlokið, þá sér hann völd Evrópuþingsins þannig að að þessu leytinu til höfum við ekki líkt því sömu möguleika og áður. Það ýtir enn frekar undir þá skoðun sem ég deili með hv þm. Óla Birni Kárasyni að (Forseti hringir.) við höfum ekki völd til að tryggja stjórnskipulegt forræði eins og áður.