143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:01]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að þetta sé hárrétt hjá honum, við eigum ekki bara að læra af kostnaðinum. Ég fór sérstaklega yfir það í framsögu minni vegna þess að mér svíður svo að við séum að borga 750 milljónir fyrir þessar tvær skýrslur, svo það sé bara sagt. Þótt það sé margt og mikið gagnlegt við þær, við höfum bara séð aðra þeirra, eru þetta fáránlegar upphæðir.

Ég held að andmælarétturinn sé mjög skynsamlegur. Við ættum að vera búin að læra af því sem á undan er gengið þannig að það er enginn vafi á því að ef hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skoðar það sem á undan er gengið getum við farið í rannsókn sem er miklu betri en sú rannsókn sem við höfum séð fram til þessa og líka tryggt að það séu einhver bönd á kostnaðinum. Það hefur komið í ljós að það virðist ekki algjörlega ljóst hver ber fjárhagslega ábyrgð á vinnu rannsóknarnefndanna fram til þessa. Það er fullkomlega óþolandi.