143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál að svo stöddu. Mig langar þó að minna á mikilvægan punkt er varðar tjáningarfrelsi. Síðan langar mig að útskýra núverandi afstöðu mína til frumvarpsins en ég mun bíða með frekari útskýringar á afstöðu minni þar til frumvarpið er komið úr nefnd.

Hlusti nú hver sem heyri. Það er munur á því að tjá eitthvað og réttinum til að tjá það. Það er munur á því að trúa einhverju og réttinum til að trúa því. Sem dæmi er okkur frjálst að trúa því í fúlustu alvöru að náttúrulögmálin og framtíðin séu útpæld og að réttlætið muni sigra að lokum óháð því hvað við gerum. Færa má góð rök fyrir því að það sé stórhættulegt viðhorf en við megum hafa það. Færa má góð rök fyrir því að Kommúnistaávarpið hafi valdið dauða tugmilljóna manna en þau sem aðhyllast trú- og skoðanafrelsi hljóta að gera sér grein fyrir því að trú- og skoðanafrelsi er einmitt til að samfélagið hafi greiðan aðgang að þeim krabbameinsfrumum sem í því finnast svo að hægt sé að uppræta þær með upplýsingu, umræðu og rökræðu.

Klárt bann á skoðunum — sama hversu ljótar og heimskulegar þær eru — er í grundvallaratriðum vond aðferð eðli síns vegna. Það er ekki vegna þess að hún gangi of langt eða fari yfir einhverja óskilgreinanlega línu heldur vegna þess að hún gengur í ranga átt yfir höfuð, sama hvort farið er skammt eða langt. Takmarkanir á tjáningarfrelsi eru ekkert grín og ekki á að beita slíkum úrræðum nema til verndar réttindum annarra, svo sem til verndar friðhelgi einkalífs, öryggis eða rannsóknarhagsmuna. En skorðum á tjáningarfrelsi ber ekki að beita í almennum hegningarlögum nema til verndar öðrum mannréttindum.

Í því sambandi verð ég að viðurkenna að ég kannast ekki við réttinn til þess að lifa án smekkleysu, hneykslunar og móðgunar. En vissulega kannast ég við réttinn til öryggis. Þess vegna er til dæmis alls staðar bannað að hóta fólki eða ógna og eru slík bönn vissulega réttmæt. En ég fæ ekki séð að þessi löggjöf geri neitt slíkt enda eru hótanir og ógnanir bannaðar burt séð frá öllum þáttum mannskepnunnar, hvort heldur sem er út frá kynþætti, trúarbrögðum, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, háralit, augnalit, hæð, fötlun eða greindarvísitölu.

Virðulegi forseti. Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þann þátt fyrr en málið hefur fengið umfjöllun hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem ég geri ráð fyrir og ætlast til að fjalli um málið af virðingu fyrir öllum mannréttindum, þar á meðal fyrir tjáningarfrelsi.

Ég vil að eitt sé skýrt frá upphafi og vil ég ítreka það, feitletra og undirstrika: Ekkert af ræðu minni eða skoðunum gagnvart þessu frumvarpi endurspeglar umburðarlyndi gagnvart hatursfullri tjáningu af nokkurri tegund. Það er ekki af umburðarlyndi sem ég er á móti takmörkunum á tjáningarfrelsi. Þvert á móti endurspeglar afstaða mín þá skoðun að við eigum að takast á við hatrið með beinskeyttri, opinskárri og óskammfeilinni umræðu; umræðu sem ekki á sér stað þegar fólk er hrætt við að tjá óvinsælar skoðanir af ótta við landslög. Af einhverjum ástæðum virðist fólk ekki hafa mikla trú á þeirri aðferð en það viðhorf virðist eingöngu koma frá þeim sem aldrei hafa reynt. Ég hef reynt. Ég hef sannfært fullt af fólki um alls kyns hluti, hatursfullt, fordómafullt, fáfrótt og biturt fólk.

Ég er með öðrum orðum ekki á móti markmiði frumvarpsins, sem er að draga úr hatursáróðri og hatri almennt, en ég er ósáttur við aðferðina. Ekki af því að ég telji hana ganga of langt heldur af því að ég tel hana ganga í ranga átt. Að því sögðu átta ég mig á því að hér er ekki verið að setja nýtt bann í sjálfu sér heldur er verið að útvíkka bann sem þegar er til staðar. Því er efnisleg gagnrýni mín á frumvarpið í reynd sú sama og ég mundi veita gegn þegar gildandi lögum.

Virðulegi forseti. Þegar allt kemur til alls varðar þetta ýmsar spurningar um mannréttindi sem er sjálfsagt að ræða vel og ítarlega. Ég ætla ekki að segja meira um þetta mál, nema aðspurður, fyrr en hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur lokið umfjöllun sinni um það.