143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

18. mál
[18:22]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Bara rétt örstutt í lokin á þessari umræðu, ég vil þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls í þessari umræðu ágætar undirtektir. Sérstaklega vil ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir að lýsa því yfir — og þeir sem eru læsir á það sem menn segja hér í ræðustóli hafa skilið það þannig — að hann mundi vilja ljá þessu þingmáli einhvers konar stuðning á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar, geri ég ráð fyrir.

Ég vek athygli á því og undirstrika að hér er fyrst og fremst verið að leggja til að ráðherra skipi nefnd til að fara yfir þetta mál, skoða kosti og galla og hvernig menn eiga að meðhöndla þetta mál þar sem markmiðið sé að lágmarka áhættuna af rekstri banka og áföllum í starfsemi þeirra fyrir þjóðarbúið. Um það hljótum við öll að geta verið sammála.

Svo vil ég vekja athygli á því að í greinargerð með þessari tillögu er m.a. fjallað um umræðuna sem varð á 138. löggjafarþingi þegar fjallað var um breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þá var sérstaklega rætt um það hvort fara ætti í þennan beina, klára aðskilnað á milli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Niðurstaðan á þeim tíma var sú, má segja, að bíða og sjá, fylgjast með því sem aðrir væru að gera og sjá til. En menn voru engu að síður meðvitaðir um að þetta væri vandi sem þyrfti að skoða og fylgjast með.

Ég vonast til þess að Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu og hún komist út úr efnahags- og viðskiptanefnd, m.a. fyrir tilstilli hv. þingmanna Vilhjálms Bjarnasonar og Jóns Þórs Ólafssonar, sem báðir sitja þar að ég hygg.