143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

efling skákiðkunar í skólum.

57. mál
[16:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls. Ég vil brýna hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum. Ég heyrði það sem hann sagði um að hann biði eftir niðurstöðum þeirrar verkefnastjórnar sem fengið hefði þetta verkefni í hendur. En eins og ég nefndi hér áðan en náði þó alls ekki að gera fullnægjandi skil, kom mjög margt fram í skýrslu starfshópsins, sem leiddur var af fyrrverandi hv. þingmanni Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, um gildi skáklistarinnar til þess að efla félagslega stöðu nemenda, bæta námsárangur og það sem mér fannst ekki síst merkilegt nú á tímum þar sem áreiti á börn og ungmenni er mjög mikið, að rækta hæfileikann til einbeitingar, sem ekki er vanþörf á í því umhverfi sem við lifum í.

Þegar hæstv. ráðherra segir að mikilvægt sé að verja grundvöll skólastarfsins og taka ekki upp ný verkefni þá vil ég líka minna hæstv. ráðherra á orð hans um að skáklistin sé hluti af sjálfsmynd Íslendinga. Eins og hæstv. ráðherra er kunnugt er sjálfsmyndin mjög breytileg og breytist hratt, ekki síst á þeim tímum sem við lifum núna á og ég nefndi hér áðan. Það er ekki sjálfgefið að þessi iðkun verði áfram hluti sjálfsmyndar okkar sem þjóðar þó að við höfum átt því láni að fagna að eiga hér ótrúlega góðan hóp framúrskarandi skákmanna þrátt fyrir að vera lítil þjóð, það skiptir máli að þetta sé áfram hluti af sjálfsmynd okkar. Það gerum við ekki síst með því að skákiðkun sé eðlilegur hluti af skólaumhverfinu.

Það þarf ekki endilega að vera hluti af hinni prentuðu námskrá en það getur verið hluti af menningu skólanna að eðlilegt sé að grípa í skák og það sé einhver sem sjái um að nemendur fái þá kennslu sem þarf. Ég held líka að hægt sé að ná miklum árangri í þessu verkefni með skapandi aðferðum. Eins og hér hefur verið nefnt þarf það ekki að kosta háar fjárhæðir, kannski einhverjar milljónir árlega, en það er ekki nokkur vafi á því að fleiri aðilar vilja gjarnan koma að því að styrkja slík verkefni. Ég nota því tækifærið hér og brýni hæstv. ráðherra til dáða í þessu máli.