143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:32]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sá sem óskar eftir hæli er skilgreindur sem hælisleitandi þar til umsókn hans hefur fengið endanlega afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Með umsókn sinni um hæli er einstaklingurinn að biðja stjórnvöld um viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður. Ólíkt svokölluðum kvótaflóttamönnum sem stjórnvöld bjóða til Íslands þurfa hælisleitendur að ganga í gegnum málsmeðferð sem getur tekið allt of langan tíma.

Síðan árið 2003 hefur Reykjanesbær verið með samning við ráðuneytið en þá tók bærinn að sér að sjá hælisleitendum fyrir húsnæði, fæði og öðrum nauðsynjum. Mörg hundruð hælisleitendur hafa því hafst við í bæjarfélaginu síðasta áratuginn. Flestir bæjarbúar hafa því sterkar skoðanir á málefninu enda er það mjög áþreifanlegt.

Mörgum þykir óþægilegt að þessi hópur fólks sé án eftirlits á meðan staða þess er könnuð en sumir koma til landsins á fölsuðum skilríkjum eða skilríkjalausir og eru ósamvinnuþýðir. Það hefur komið fyrir að hættulegir glæpamenn hafa gengið lausir í bæjarfélaginu vikum og jafnvel mánuðum saman áður en yfirvöld komust að því hverjir þessir menn voru og gátu brugðist við.

Þrír lögreglumenn sem stunduðu nám í stjórnun við endurmenntunardeild Lögregluskóla Íslands unnu lokaverkefni árið 2007 um hvernig móttöku hælisleitenda annars staðar á Norðurlöndunum er háttað en verkefnið ber heitið Vistunarúrræði fyrir hælisleitendur og aðra vegalausa útlendinga. Þar kemur meðal annars fram að annars staðar á Norðurlöndunum eru hælisleitendur undir eftirliti uns komið hefur í ljós hvaða einstaklingar þetta eru.

Mér finnst að við ættum að læra af reynslu nágranna okkar og beini því hér með til hæstv. innanríkisráðherra og annarra sem málið snertir að kynna sér innihald þessa verkefnis mjög vel.

Vaxandi straumur hælisleitenda til Íslands kallar á opnari umræðu um þessi mál og því fagna ég þessari umræðu í dag og þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að hafa tekið hana upp.

Virðulegi forseti. Við eigum að sýna mannúð í verki og sanngirni, og hjálpa fólki sem þarf að flýja ættjörð sína vegna hörmulegra aðstæðna (Forseti hringir.) en jafnframt að hraða afgreiðslu mála eins og kostur er.