143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Um einn milljarður jarðarbúa fær ekki nóg að borða. Á hverjum degi deyja um 40 þúsund manns úr næringarskorti eða vegna sjúkdóma sem eru afleiðingar hans og af þeim eru börn í meiri hluta. Á hverri mínútu deyja 20 börn úr hungri, 600 börn deyja úr hungri í heiminum á meðan við ræðum störf þingsins hér í dag.

Engar aðrar hörmungar í heiminum tortíma jafnmörgum mannslífum og hungrið. Þetta eru svo yfirþyrmandi tölur að okkur hættir til að líta á hungrið í heiminum sem eina af þeim óþægilegu og óbreytanlegu staðreyndum sem við höfum engin áhrif á. En svo er ekki. Við getum haft áhrif og það er skylda okkar að leggja okkar lóð á vogarskálarnar fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heimsins. Baráttan gegn fátækt, fyrir félagslegu réttlæti, gegn misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum á ekki að vefjast fyrir þjóð sem er í hópi 15–20 ríkustu þjóða heims.

Ísland hefur lengi stefnt að því markmiði Sameinuðu þjóðanna að veita 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu og í fyrstu þingsályktun þar að lútandi, sem samþykkt var einróma árið 2011, var kveðið á um að framlögin skyldu vera 0,28% af vergum þjóðartekjum árið 2014. Það er nöturlegt að stjórnarmeirihlutinn ætli nú að hlaupast undan þessum skuldbindingum. Um 3–4% af lækkun veiðigjaldsins hefði dugað til að standa við einróma samþykkt Alþingis.

Hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir ræddi hér í þinginu fyrir viku síðan skýrslu sem var flutt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú í haust og sagði að sú skýrsla væri hrollvekja um aðstæður unglingsstúlkna í þróunarríkjum, ekki síst í sunnanverðri Afríku. Það eru ríkir hagsmunir þróaðra ríkja að draga úr fátækt og misskiptingu auðs í heiminum, berjast gegn sjúkdómum og faröldrum sem eru víða landlægir og auka menntunarstig með sérstakri áherslu á konur og börn. Framlög til þróunaraðstoðar og samvinnu er því um leið framlag til friðar og jöfnuðar um allan heim og við eigum hiklaust að styðja það í verki. Það er enginn þjóðarsómi að því víkja sér undan þeirri ábyrgð.