143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Alger viðsnúningur hefur orðið í ríkisfjármálum. Hallalaus rekstur blasir við á næstu missirum. Á fyrstu sex mánuðunum voru tekjur yfir áætlun og gjöld undir áætlun. En það eru blikur á lofti og kominn er tími til að hæstv. fjármálaráðherra hætti að kenna fyrirrennurum sínum um seinni sex mánuðina og fari sjálfur að gera grein fyrir því hvað það er sem hann ætlar að gera á síðari hluta ársins til að tryggja það að fjárlögin haldi áfram að ganga eftir, því að seinni sex mánuðirnir eru á hans vakt. Þær blikur sem þar eru á lofti lúta meðal annars að aðgerðum og aðgerðaleysi hans eigin ríkisstjórnar.

Ástæða er til að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort hann telji að á síðari sex mánuðunum muni minni fjárfestingar, minni hagvöxtur, m.a. vegna þeirrar óvissu sem ríkisstjórnin hefur skapað, leiða til þess að tekjurnar verði minni á síðari hluta ársins, þó að þær hafi gengið eftir á fyrri hluta ársins. Líka er ástæða til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra með hvaða hætti hann hyggist bæta upp það tekjutap sem hann hefur sjálfur valdið á síðari hlutanum með því að afsala sér veiðigjöldunum. Einnig er ástæða til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað hann hyggist gera til að tryggja það að markmið fjárlaganna um eignasölu gangi eftir á yfirstandandi fjárlagaári. Fjárlögin gera ráð fyrir eignasölu og þó að ekki hafi orðið af henni á fyrri hluta ársins þá getur hæstv. fjármálaráðherra ekki kennt þeim sem þá héldu um stjórnvölinn um það ef áformin ganga ekki eftir á þessu ári, því að meiri hluta ársins hefur hann stýrt fjármálaráðuneytinu og hlýtur að hafa uppi áform og áætlanir um það að efna þá þætti fjárlaga enda ber hæstv. fjármálaráðherra að virða fjárlögin.

Jafnframt er ástæða til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um málefni Íbúðalánasjóðs sem í skýrslu Ríkisendurskoðunar er sérstaklega áréttað hversu mikill vandi er orðinn og ef til vill hafi sá vandi ekki minnkað við yfirlýsingar formanns fjárlaganefndar um að sjóðurinn njóti kannski ekki ríkisábyrgðar. Væri gott ef hæstv. fjármálaráðherra tæki af tvímæli gagnvart fjárfestum og öðrum aðilum á markaði um afstöðu fjármálaráðherrans til þess hvort þær skuldbindingar njóti ekki örugglega ríkisábyrgðar eða þeirra hugmynda sem hafa líka heyrst frá stjórnarþingmönnum í nefndinni um að það eigi bara að setja sjóðinn í þrot, hvort unnið sé að einhverjum slíkum verkefnum í fjármálaráðuneytinu að stofna um sjóðinn skilanefnd eða grípa til annarra slíkra róttækra ráðstafana.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að greiðsluhallinn á fyrstu sex mánuðum ársins nam 16,7 milljörðum kr. Tekjurnar voru um 260,2 milljarðar en áætlað var að þær yrðu 259,8 milljarðar þannig að tekjurnar eru 400 millj. kr. umfram það sem gert var ráð fyrir. Þrátt fyrir að tekjur af neyslusköttum séu lítið eitt lægri en upp var lagt með þá bæta aðrir þættir það. Hér er um lítils háttar raunlækkun að ræða frá fyrra ári, 3,3% hækkun á milli ára meðan verðlagshækkunin er 3,8%. En hið ánægjulega er auðvitað þróunin á gjaldahliðinni því að gjöldin eru rétt um 8 milljörðum undir áætlun, áttu að vera á fyrstu sex mánuðunum 285,6 milljarðar en eru samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar — ég vek athygli á að það er prentvilla þar, það á ekki að vera 277,9 milljarðar heldur 276,9 milljarðar sem gjöldin voru og þar af leiðandi umtalsvert undir því sem áætlað hafði verið. Það breytir því ekki að allt of margir fjárlagaliðir eru umfram það sem áætlað var. Það er mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra grípi þar strax inn í.

Ég inni hæstv. ráðherra eftir því til hvaða ráðstafana hann hafi gripið til að stöðva framúrkeyrslu á einstökum liðum vegna þess að sú framúrkeyrsla verður á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra og er mikilvægt að hann taki til hendinni í þeim efnum. Verulegur agi í ríkisfjármálum náðist hér í kjölfar hrunsins. Hann var mikill á fyrri hluta á síðasta kjörtímabili og er enn talsvert mikill en það er gríðarlega mikilvægt að við slökum hvergi á klónni í því og fylgjum fjárlögum fast eftir og gerum þá kröfu til forstöðumanna að þeir virði lögin.