143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

nauðungarsala.

150. mál
[12:16]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Nú styttist verulega í að ríkisstjórnin muni koma fram með aðgerðir í þágu skuldsettra heimila en það á að gerast í lok nóvember. Ég bind miklar vonir við þær aðgerðir og vona svo sannarlega að loksins muni réttlætið ná fram að ganga í málefnum heimilanna.

Undanfarin ár hafa verið heimilunum erfið. Lánin hafa hækkað upp úr öllu valdi og einnig fastir póstar eins og til dæmis hiti og rafmagn. Auk þess hefur öll þjónusta hækkað og það verður dýrara með hverjum deginum að kaupa nauðsynjavörur eins og til að mynda mat. Á þessum árum þar sem allt hefur hækkað hafa margir hafa misst vinnuna og mjög stór hópur fólks misst hluta vinnunnar og starfar nú í skertu stöðuhlutfalli. Á þessum tíma hafa innheimtufyrirtæki gengið mjög hart fram og það líður ekki langur tími frá því að greiðsluseðill er ógreiddur þangað til hann er sendur í milliinnheimtu sem þýðir að ofan á greiðsluseðilinn bætast mörg þúsund krónur auk vanskilagjalds og dráttarvaxta.

Heimilin hafa beðið eftir aðgerðum frá hruni og mikil þörf hefur verið á að koma þeim til aðstoðar. Fyrri ríkisstjórn kom fram með 110%-leiðina og sértæka skuldaaðlögun og hefur hugurinn á bak við þær aðgerðir eflaust verið mjög góður, og mér kemur ekki til hugar að halda öðru fram, en því miður dugðu þær ekki til. Ég skil þá svo vel sem bíða og eru orðnir þreyttir á biðinni eftir aðgerðum en gerum okkur grein fyrir að beðið hefur verið mun lengur en þetta kjörtímabil hefur staðið. Það hefur verið beðið í mörg ár eftir aðgerðum sem duga. Þess vegna hefur mikil vinna farið í gang í skuldaleiðréttingarhópum ríkisstjórnarinnar við að finna leiðir sem munu duga til að koma heimilum til hjálpar, vinna að aðgerðum sem munu hafa raunverulegt gildi og gagn fyrir heimilin í landinu.

Ef það er einhver sem vill halda því fram að ekki sé réttlætanlegt að koma heimilum til aðstoðar spyr ég þann sama: Af hverju hefur verið hægt að koma fjármagnseigendum til aðstoðar og af hverju hefur verið hægt að koma ýmsum fyrirtækjum til aðstoðar? Skilaboð mín eru sú að núna sé komið að hinni hlið blaðsíðunnar, að koma heimilum til aðstoðar. Þar sem ég kom inn í pólitík með þá hugsjón að vinna fyrir skuldsett heimili, meðal annars, ekki bara, og vera talsmaður þeirra hér á þingi fannst mér ekki nema sjálfsagt mál að vera með á þessu frumvarpi um breytingar á lögum um nauðungarsölu. Ég fagna því að frumvarpið sé komið fram og að samstaða sé á milli nokkurra flokka á þingi um að reyna að koma málinu í gegn.

Ég legg til að frumvarp þetta verði samþykkt og gildistíminn varðandi frestun uppboða verði á meðan aðgerðir ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga og beðið er álits EFTA-dómstólsins á lögmæti verðtryggingarinnar á fasteignalánum. Einnig ætla ég að vera vongóð um að þegar skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar koma fram og verða kynntar verði lagðar fram ýmsar tillögur sem muni jafnvel lengja samþykkisfrest á nauðungarsölum hjá fjármálastofnunum.