143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni.

158. mál
[14:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er engum vafa undirorpið að það má einfalda regluverk atvinnulífsins þótt kannski megi efast um að eitt ráðið enn og eitt umsagnarferlið enn verði til þess. Ég vil því nota tækifærið og spyrja hæstv. forsætisráðherra um önnur áform ríkisstjórnarinnar á því sviði sem hann nefndi. Það er úr punktunum 111 sem birtir voru á mánudaginn þar sem segir að ekki eigi að verja meiri fjármunum til eftirlits nema sýnt hafi verið fram á að ávinningurinn sé meiri en kostnaðurinn sem lagt er í.

Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að ávinningur af eftirliti verði metinn í því sambandi, til að mynda ávinningur af matvælaeftirliti í matvælaöryggi eða umferðareftirliti í umferðaröryggi? Hvernig sér hann fyrir sér til dæmis að öryggi borgaranna í þeim tveimur tilfellum verði metið til fjármuna á móti hins vegar auknum framlögum?