143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni.

158. mál
[15:03]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil bara rétt í lokin þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni og reyna að draga úr þeim áhyggjum sem varð vart við af því að þeir sem settust í þetta ráð væru að gæta einhverra hagsmuna einhverra annarra en almennings.

Nú höfum við reynt mikið á undanförnum árum að innleiða það sem menn vilja kalla fagleg vinnubrögð. Stundum hefur menn greint á um hvað það væri. Það hefur verið ríkjandi í umræðunni að þingmenn ættu að skipta sér minna af ráðningum og skipan í nefndir o.s.frv., en raunin var á liðnum áratug. Hér er um það að ræða að fulltrúar nokkurra af stærstu samtökum í landinu, sem eru fulltrúar launþega og á almennum vinnumarkaði og atvinnurekenda, geti lagt til hvaða sérfræðingar setjist í þetta ráð. Við drögum þá ályktun að þeir hafi þekkingu til þess að skipa þar góða fulltrúa.

Þetta er í samræmi við það sem hefur verið talað um hér undanfarin ár að það eigi að færa svona hluti sem mest frá þinginu og til annarra. Ef menn telja að það hafi verið óheillavænleg þróun er það efni í áhugaverða umræðu. Kannski vilja menn að Alþingi fari aftur að kjósa t.d. stjórnir banka. Má færa sömu rök fyrir því. Alþingi er skipað fulltrúum almennings. Ef banki er í eigu almennings gæti með sömu rökum verið hægt að halda því fram að Alþingi ætti einfaldlega að kjósa stjórnir ríkisbanka.

Ég tel að þetta séu óþarfaáhyggjur varðandi þessa fulltrúa, vegna þess að þegar búið er að skipa sérfræðinga í þetta ráð hljótum við að treysta því að þeir vinni sína vinnu faglega.

Aðalatriðið er þó að ekki er verið að færa þeim neitt formlegt vald. Þeir eru einungis að fá vald til að segja sína skoðun, koma með upplýsingar og ábendingar. Ef menn eru ekki hræddir við upplýsingar og ábendingar um hvað betur megi fara þurfa þeir ekki að óttast að þeir sem koma með ábendingar og upplýsingar séu að gæta einhverra hagsmuna annarra en almannahagsmuna.

Svo að lokum af því Norðurlönd voru til umræðu þá er þetta einmitt í samræmi við þróunina á Norðurlöndum, ekki hvað síst í Svíþjóð og núna í Noregi þar sem menn hafa ráðist í miklar úrbætur og endurbætur á regluverki og m.a. komið á svona regluráði í Svíþjóð. Sambærilegt ráð mun væntanlega hefja störf í Noregi áður en langtum líður til að ná þessum sömu markmiðum.

Norðurlöndin voru nefnilega, þótt þau séu til fyrirmyndar á ýmsan hátt eins og hér var nefnt, farin að dragast á margan hátt aftur úr öðrum löndum og voru lent í verulegum vandræðum með að viðhalda því velferðarkerfi sem þar hafði verið byggt upp. Nú hefur tekist að snúa þeirri þróun við og Norðurlönd eru aftur farin að sækja fram. En til þess þurfti að endurmeta hlutina og í sumum tilvikum að einfalda og gera skilvirkari rétt eins og við ætlum að gera hér á landi.