143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

skuldaleiðréttingar.

[15:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun var Seðlabankinn inntur eftir hugmyndum um það að fjármagna skuldaleiðréttingar með skuldabréfaútgáfu af hálfu Seðlabankans og kom skýrt fram af hálfu Seðlabankans að það væri ígildi peningaprentunar og þyrfti ekki að stafa ofan í alþingismenn hvaða afleiðingar slíkt mundi hafa. Það væri kolólöglegt og mundi setja lánshæfiseinkunn landsins í ruslflokk. Auk þess kom fram hjá seðlabankastjóra að samkvæmt hans upplýsingum væri slík leið ekki á teikniborðinu.

Ég vil þess vegna gefa hæstv. efnahagsráðherra tækifæri til þess hér að taka af öll tvímæli um það að ekki standi til eins og hugmyndir hafa verið uppi um og sögusagnir sterkar að fjármagna skuldaleiðréttingar með skuldabréfaútgáfu Seðlabankans eða annarri peningaprentun.

Sömuleiðis vil ég ítreka spurningu mína til fjármálaráðherra frá því í síðustu viku, vegna hinnar erfiðu stöðu ríkissjóðs, hvort það sé ekki alveg ljóst að af hálfu hæstv. fjármálaráðherra komi ekki til greina að leysa skuldamálin með því að auka nettóskuldir ríkissjóðs sem eru ærnar.

Það eru auðvitað mikilvæg sanngirnisrök fyrir því að ganga lengra til móts við skuldug heimili í landinu. Það er mikilvægt að þær aðgerðir séu ekki þannig úr garði gerðar að þær komi í bakið á okkur með verðbólgu og hærri vöxtum.

Ég fagna því að lokum að hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því yfir gagnvart erlendum kröfuhöfum að hann vilji fá meira í hlut Íslands en 300 milljarða eða 75% niðurfellingu, enda ef á að lækka skuldir heimilanna í landinu um 20% og slá nýtt heimsmet þá þarf 340 milljarða til að uppfylla það loforð sem Framsóknarflokkurinn hefur gefið. Þess vegna er trúlega betra að spenna bogann heldur hærra í samningaviðræðunum en hæstv. forsætisráðherra lagði af stað með. (Gripið fram í.)