143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek einnig undir þetta sjónarmið en vil líka undirstrika það með þeim orðum að náttúruvernd er ekki lengur bara hugmyndafræðilegt bitbein. Hún er ekki spurning um vinstri og hægri eða hvort við viljum sjá falleg fjöll eða ekki, hún er beinlínis orðin útflutningsvara. Okkur ber skylda, jafnvel út frá hörðustu sjálfselskusjónarmiðum, jafnvel ef við viljum fara þangað sem ég er ekki að segja að við eigum að gera, (Gripið fram í.) til að vernda umhverfið á öllum slíkum forsendum. Því er algjörlega sjálfsagt að þjóðin öll, ríkið, sveitarfélög og hver einstaklingur sjálfur, beri ábyrgð á því að vernda náttúruna. Það skiptir engu máli út frá hvaða heildarhagsmunum við reynum að nálgast málið, hvort sem það er frá fagurfræðilegum, hugmyndafræðilegum eða hreinlega viðskiptafræðilegum sjónarmiðum, okkur ber að vernda náttúruna. Það er algjörlega sjálfsagt að sveitarfélög, ríki og hver einasti Íslendingur leggi sitt af mörkum til að tryggja að það geti gerst.