143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nýlega átti hér leið um Ísland norskur maður sem starfar að upprætingu bótasvindls í almannatryggingakerfinu í Noregi. Það kom fram í máli hans að Norðmenn hafa unnið mjög skipulega að þessum málum um tíu ára skeið. Þeir geta meðal annars samkeyrt upplýsingakerfi hins opinbera í því skyni að komast fyrir bótasvindl með eftirtektarverðum árangri. Fram kom í máli þessa ágæta manns að Norðmenn teldu að hver króna sem eytt væri til slíks eftirlits skilaði sér fjórfalt til baka.

Nú er það almennt álitið að hér á landi sé því miður um að ræða töluvert svindl í almannatryggingakerfinu. Menn hafa látið að því liggja að t.d. hjá Tryggingastofnun ríkisins gæti sú upphæð verið 3–4 milljarðar kr. á ári. Sama er upp á teningnum í atvinnuleysisbótakerfinu. Þar er því miður verulegt undirliggjandi svindl en einhverra hluta vegna hefur ekki fengist vilyrði eða leyfi Persónuverndar til að samkeyra þessi tvö kerfi, þ.e. ríkið, hið opinbera, fær ekki vilyrði til að samkeyra tvö opinber tölvukerfi til að koma í veg fyrir svik. Furðuleg afstaða. Þess vegna skora ég á þingheim að ef lagabreytingu þarf til að hægt sé að stunda hér virkt eftirlit með bótasvindli þá eigum við að bæta þar úr og ég skora á viðkomandi ráðherra að veita þegar peninga í þennan málaflokk sem mun ef að líkum lætur skila sér margfalt til baka því að þjófnaður er þjófnaður hvar sem hann kemur fram.