143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Mér líkar vel við fílósóferingar hv. þingmanns, ég hef af fáu jafn gaman og pólitískum fílósóferingum.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort ég telji að það sé einhver flötur á samkomulagi. Ja, ríkisstjórnin hefur valdið í sínum höndum, það kostar hana ekkert að láta reyna á það. Hún gæti meira að segja skorað prik með því að gera það og ef ekki næðist saman gæti hún þess vegna sagt að það væri ósáttfýsi og óskammfeilni stjórnarandstöðunnar að kenna.

Ég hef mínar sálfræðilegu skýringar á þessu og eins og ég drap aðeins á eru þær þessar: Það var gríðarleg heift í þessum þingsal, eins og hv. þingmaður rifjaði upp af skammri veru sinni hér rétt fyrir þinglok, áður en við gengum til kosninga. Kosningar eru yfirleitt ekki atburðarás sem er fallin til þess að draga úr hita heldur magnar hann. Í þeirri sálfræðilegu stöðu komu menn aftur til þings. Ég held sem sagt að ákvörðunin sem kom fram nokkuð snemma, minnir mig, einhvers konar yfirlýsingar um að menn ætluðu að ráðast í þetta hervirki, hafi borið merki þess.

Nú finnst mér hins vegar hæstv. ráðherra hafa í ýmsum efnum komið viturlega fram og verið klókur. Ég nefni t.d. markríldeiluna. Ég hef sagt það opinberlega, kannski vegna þess að hann er náttúrlega skuggalega nærri línu síðustu ríkisstjórnar, en hann hefur staðið sig vel í því máli. Þar hefur hann sýnt að hann getur hugsað með köldu höfði og rökvísu og staðið á löppunum á meðan. Það finnst mér að hann eigi að gera í þessu máli. En mér finnst hann ana áfram eins og ég sagði í upphafsorðum ræðu minnar áðan. Hann er eins og hið ómögulega, eins og hestur á brokki sem lendir undir eigin hófum. Það er náttúrlega ekki fallega sagt um hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, en þannig finnst mér þetta frumvarp vera. Mér finnst þetta vera slys, mig tekur þetta sárt. Ég er þeirrar skoðunar að þessi lög hafi verið ein best unnu lögin á síðasta kjörtímabili. (Forseti hringir.) Það voru fá lög sem ég studdi dyggilegar en þessi.