143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjölmargar þjóðir sem hafa glímt við fjárhagslega erfiðleika, kreppu og hrun efnahagskerfis, hafa komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að fjárfesta í þeim greinum sem fjárfestingaráætlunin tiltekur. Vel flestar okkar nágrannaþjóðir hafa gert það með góðum árangri. Við erum ekki að finna upp hjólið í þessu máli.

Nú er ég orðinn svolítið ringlaður. Hæstv. ráðherra segist vera sammála þessu, það þurfi að skapa ný störf, og við erum væntanlega sammála um að með því að fjárfesta í þessum greinum sköpum við tekjur. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra skilji vel hvernig Tækniþróunarsjóður virkar til dæmis. Hann er samkeppnissjóður sem veitir fyrirtækjum tækifæri til að byrja. Þetta er vel þekkt.

Við erum einfaldlega að tala um á þessum tímapunkti: Vill hæstv. ráðherra þetta? Hvernig ætlar hann að gera þetta? Ef hann vill þetta ekki, hvaða aðrar leiðir til tekjuöflunar, aðrar en skattur á þrotabú sem verða væntanlega ekki hér í áratugi, (Forseti hringir.) sér hann til sóknar ef hann ætlar ekki (Forseti hringir.) þessa leið?