143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

tekjuskattur.

175. mál
[15:08]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski erfitt að líta á þetta sem andsvar heldur stend ég upp til að mæla með þessu frumvarpi sem ég tel mjög til bóta. Ég vona að við berum gæfu til að samþykkja frumvarpið því að ég tel að í allri þeirri húsnæðisumræðu sem hefur verið hér á landi og erfiðleikum sem fólk hefur lent í þá hafi sýnt sig hvað það hefði verið gott ef fólk hefði átt inneign. Það hefur líka komið í ljós að þeim sem áttu eitthvert eigið fé þegar til húsnæðiskaupa kom hefur vegnað miklu betur í því ölduróti sem hefur verið á undangengnum árum varðandi húsnæðiskaup.

Þess vegna finnst mér vel að verki staðið að veita afslátt af skatti vegna sparnaðar til húsnæðiskaupa. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að sparnaður sé af hinu góða. Ég hef náttúrlega nokkrar áhyggjur af því að ungt fólk sem er kannski að mennta sig hluta þess aldursbils sem getið er um í frumvarpinu hafi kannski ekki mikið aflögu meðan það er í námi en þeim mun meira getur það vonandi sparað þegar námi lýkur. Þess vegna styð ég þetta mjög og vonast til að sem flest ungmenni geti sparað þannig að þau geti átt svona 4–5 milljónir upp í sína fyrstu íbúð.