143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

hækkanir ýmissa gjalda ríkisins.

[10:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Á þessum tíma árs eru allir að búa til áætlanir fyrir næsta ár. Við erum hér með fjárlög og fjáraukalög vegna þessa árs og öll sveitarfélög eru að sjálfsögðu að búa til fjárhagsáætlanir. Í þeim fjárhagsáætlunum hafa verið boðaðar venjulegar hækkanir, ef svo má að orði komast, í verðbólguþjóðfélagi eins og við lifum í og sveitarfélögin eru þar í raun og veru alveg eins og ríkissjóður.

Það brá svo við um daginn að hv. forustumenn ríkisstjórnarinnar gagnrýndu mjög sveitarfélögin fyrir þær hækkanir sem boðaðar voru við gerð fjárhagsáætlunar. Nú bregður hins vegar svo við, sem eru gleðileg tíðindi, að mörg sveitarfélög hafa dregið til baka þessar hækkanir. Reykjavíkurborg byrjaði, síðan hafa í kjölfarið komið Dalvíkurbyggð, Bolungarvíkurkaupstaður, Vestmannaeyjar og fleiri sveitarfélög. Allir hafa gert það til að leggja sitt af mörkum til að draga úr verðbólgu. En hér í þinginu er frumvarp um ýmsar forsendur fjárlaga fyrir árið 2014, verðlagsbreytingar o.fl., hækkun á krónutölu, sköttum og gjaldskrám og í takt við verðlagsforsendur. Í því frumvarpi má meðal annars finna hækkun á olíugjaldi, hækkun á almennu og sérstöku kílómetragjaldi, hækkun á almennu og sérstöku bensíngjaldi, hækkun á kolefnisgjaldi, hækkun á raforkuskatti, hækkun á bifreiðaskatti, hækkun á gjaldi á áfengi og tóbak, hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra, hækkun á skrásetningargjöldum í opinbera háskóla, hækkun á sóknargjöldum og framlagi íslenska ríkisins til þjóðkirkjunnar o.fl.

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er ekki rétt að ríkissjóður hætti við allar þessar hækkanir, dragi þær til baka og leggi þar með sitt lóð á vogarskálina til að lækka verðbólgu, líkt og stjórnaraðilar hafa nánast krafist af sveitarfélögunum? Þau eru byrjuð á því en nú vantar okkur svar frá hæstv. forsætisráðherra.