143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

Ríkisútvarpið og heyrnarskertir.

194. mál
[17:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mig langar að taka upp mál sem við höfum raunar rætt áður hér í þingsal sem lýtur að aðgengi heyrnarskertra og heyrnarlausra að Ríkisútvarpinu.

Í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er kveðið á um í 2. mgr. 6. gr. laganna að Ríkisútvarpið skuli veita, með leyfi forseta, „heyrnarskertum aðgang að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á fréttum og öðru sjónvarpsefni, með textavarpi, útsendingum á táknmáli og/eða öðrum miðlunarleiðum er henta í þessu skyni og eru í samræmi við tæknilega möguleika á hverjum tíma“.

Enn fremur kemur fram í 4. mgr. sömu greinar, með leyfi forseta:

„Ef rof verður á dagskrá eða fréttatímar sendir út við sérstakar aðstæður skal Ríkisútvarpið gera mikilvæg skilaboð og fréttir aðgengilegar heyrnarskertum með táknmálstúlkun og/eða textun.“

Sá vilji var undirstrikaður í lögum og ég er ekki í nokkrum vafa um að þingheimur er algjörlega sammála um þann vilja löggjafans sem þar birtist. Áður höfðu verið ákvæði um textun og táknmálstúlkun í þjónustusamningi eða samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu milli menntamálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins. Væntanlega er nú í bígerð nýr samningur að þessu leyti.

Mér hafa borist nokkrar fyrirspurnir um hvernig þessum málum sé háttað hjá Ríkisútvarpinu, hvernig gangi að fylgja eftir þeim ákvæðum laganna. Fregnir bárust af því að komin væri fram ný tækni sem gerði í samtímatextun mögulega, þ.e. að hægt væri, þegar einhver talar á íslensku, að breyta því talaða orði í textun jafnharðan, en þeir tæknilegu örðugleikar hafa helst verið nefndir þegar þetta hefur verið til umræðu áður í þingsal. Nú ætti slík tækni að vera orðin aðgengileg. Það ættu því ekki að vera miklar hindranir í því fyrir Ríkisútvarpið að sinna þeim ákvæðum sem lengi hafa verið í samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu og eru komin í lög. Eins og ég sagði áðan er ég nokkuð viss um að löggjafinn er algjörlega sammála um þennan vilja og þá stefnu sem birtist í lögunum.

Mig langar því að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig og hvort hann hafi fylgt þessu ákvæði eftir, hvort hann hafi gengið á eftir því við Ríkisútvarpið að það sinni þessari textun. Hvort fyrirhuguð sé endurskoðun samnings um útvarpsþjónustu í almannaþágu og hvort þessi atriði verði tekin sérstaklega upp. Er hæstv. ráðherra kunnugt um að eitthvað hindri það að þessu ákvæði sé fylgt í hvívetna? Við sem fylgjumst með til að mynda myndmiðlun Ríkisútvarpsins höfum vissulega tekið eftir því að þar er alls ekki ávallt texti á fréttum eða öðru efni þvert á þá ætlun sem (Forseti hringir.) birtist í lögum. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað það er sem stendur í vegi fyrir því.