143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar hefur komið fram og það er afar ánægjulegt fyrir okkur sem höfum beðið eftir henni frá því að ríkisstjórnin tók til starfa í maí. Eins og hér hefur komið fram munu um 80% heimila njóta leiðréttingarinnar. Þetta eru almennar aðgerðir sem gagnast öllum. Ég finn það hvar sem ég kem, ánægjubylgju yfir tillögunum sem lagðar hafa verið fram. Það er sama hvort það er í samtölum eða á vinnustöðum, alls staðar er fólk að tala um og láta í ljós ánægju sína með tillögurnar.

Ég hef þó lengi haft áhyggjur af einum hópi, og reyndar mörgum, en sérstaklega þeim sem er nú undir hamrinum með húsin sín og hefur misst þau á uppboði. Ég sendi gerðarbeiðendum beiðni um að þau nauðungaruppboð sem núna eru í samningsferli verði afturkölluð og að kannað verði hvort þar séu ekki eignir sem verður hægt að bjarga undan hamrinum með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og munu koma til framkvæmda á miðju næsta ári. Það er mikilvægt að þau heimili sem eiga einhver tækifæri verði hlíft. Ég skora á þessa aðila, í flestum tilfellum er um að ræða Íbúðalánasjóð, tryggingafélög og sveitarfélög, sem eru á flestum uppboðunum, að skoða hvort ekki sé hægt að ganga til baka með þau uppboð sem eru í samningsferli og hlífa þeim heimilum sem mögulegt er.

Nú þegar eru 80 heimili boðin upp á Suðurnesjum í þessari viku, 80 heimili. Og fleiri hundruð heimili hafa verið boðin upp þar á þessu ári. Það er mikilvægt að við stöðvum þá bylgju sem er óþolandi fyrir okkur öll og ekki síst fyrir þá sem fyrir henni verða.