143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

209. mál
[18:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er einn af nefndarmönnum í atvinnuveganefnd sem standa að því lagafrumvarpi sem formaður nefndarinnar, hv. Jón Gunnarsson, mælti fyrir þar sem eingöngu er verið að fresta sektarákvæðum sem áttu að taka gildi um næstu áramót til 1. október 2014.

Það er rétt sem kom fram að mikil samstaða var í fyrrverandi atvinnuveganefnd um það frumvarp sem varð að lögum nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, en þau tóku gildi 10. apríl 2013. Eins og kom fram í flutningsræðu hv. þingmanns var gert ráð fyrir að lögin tækju gildi einu ári seinna, en í meðförum atvinnuveganefndar skapaðist mikil samstaða allra nefndarmanna um að flýta því um eitt ár. Það var auðvitað gert af góðum hug til að auka innlent íblöndunarefni til að setja í eldsneyti og stuðla þar með að meiri notkun á innlendum íblöndunarefnum og spara þannig gjaldeyri á innflutningi á eldsneyti o.s.frv.

Til að gera langa sögu stutta kom þetta frumvarp út úr vinnu atvinnuveganefndar. Margir gestir komu til nefndarinnar og ég verð að segja alveg eins og er að þar komu fram ýmsar upplýsingar sem við fengum ekki í nefndinni á sínum tíma. Á tímabili leit út fyrir að jafnvel væri bara skynsamlegt að fresta gildistöku laganna til þess tíma sem lagt var til þegar frumvarpið var lagt fram. En sem betur fer var það ekki gert og ég hygg að hv. þingmaður hafi sagt að ákveðin málamiðlun kæmi fram í frumvarpinu núna, þ.e. að fresta gildistöku sektarákvæða í 6. gr. til 1. október 2014.

Í nefndinni varð maður þess áskynja að misjöfn sjónarmið voru hjá olíufélögunum. Sum voru tilbúin, önnur kannski ekki. Ég vil alveg sérstaklega taka fram að tíminn frá gildistöku laganna 10. apríl 2013 — hefðbundinn tími sumarleyfa og annað slíkt sem gerði það kannski að verkum að menn undirbjuggu sig ekki eða höfðu ekki nægan tíma til að gera það — er líka röksemd með því að fresta þessu eins og hér er lagt til.

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi segja í þessum efnum er einungis um sektarákvæðið, frestun gildistöku þess, og lýsa stuðningi við það og fagna því að við þurfum ekki að ganga þá göngu að fresta gildistöku laganna allra.

Síðan ætla ég að taka undir að sú þróun á Íslandi er mjög ánægjuleg, eins og í svo mörgu öðru hjá okkur, að margir bílar eru farnir að keyra á metangasi sem unnið er hér á landi, í raun og veru af ruslahaugum, og mikil fjölgun er í rafmagnsbílum. En ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara inn á aðra þætti, sem vissulega ber að taka tillit til eins og hv. þingmaður nefndi áðan, þ.e. hvernig þeir bílar eiga að greiða í sameiginlegan vegasjóð ef svo má að orði komast. Það er mál sem hefur ekki verið klárað en það er hlutur sem er tifandi inni vegna þess að við sjáum að hluti vegasjóðs af eldsneyti fer minnkandi og þörfin fyrir aukna vetrarþjónustu, uppbyggingu og viðhald vega er mikil.

Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, um málið. Ég tel ekki að það þurfi að ganga til nefndar milli umræðna af því að málið er flutt af allri atvinnuveganefnd.