143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:47]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur sem sagði hér áðan að kannski hefði verið heppilegt ef hæstv. ráðherra hefði komið upp í andsvörum við hv. formann fjárlaganefndar, sem ég sé að er ekki í salnum. — Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst það svolítið einkennilegt vegna þess að hún er framsögumaður þessa máls og það er nú venjan hér í þingsal að framsögumenn sitja undir umræðunni, ef svo má að orði komast, og ráðherrar eru gjarnan kallaðir til. Ég vildi kalla formanninn til og ég skal gjarnan gefa eftir mitt andsvar þannig að hv. formaður fjárlaganefndar geti komið hingað inn og svarað. Svo er það reyndar líka þannig, samkvæmt þingsköpum, að ráðherra og framsögumaður málsins getur hvenær sem er komið inn í umræðuna, hún getur farið fram fyrir alla aðra í umræðunni. Mér þætti það mjög viðeigandi að hún léti svo lítið að gera það.

En ég hef mikla samúð með hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli. Þetta var einmitt eitt af því sem ég tók eftir. Ég hugsaði með mér: Hvernig ætla þeir nú að bregðast við því? Sá er nú góður að hafa fallist á þetta, hugsaði ég, alltaf finnur hann einhverja leið til að koma málunum einhvern veginn vel fyrir — ég var svona að fletta upp og sá að hann gæti kannski hætt norðurskautssamstarfi á næsta ári, 29 milljónir, og tekið eitthvað annað einhvers staðar annars staðar og klippt af. En nú heyri ég að svo hefur ekki verið heldur hefur þetta bara verið gert að honum forspurðum.

En getur hæstv. ráðherra kannski nefnt mér eitthvert dæmi? Ég get vel trúað því að eitt sendiráð — hvað kostar til dæmis sendiráðið í Nuuk án húsnæðisins, ef við tökum það, eða eitthvað annað? Ég bara spyr af því að (Forseti hringir.) einhvern tímann var mér sagt að maður vissi ekkert um tölur nema maður hefði einhvern samanburð.