143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir framsögu hennar eða umræður þar sem hún hefur meðal annars farið enn ítarlegar yfir nefndarálit minni hluta Alþingis varðandi fjáraukann. Í nefndaráliti meiri hlutans er talað um að ná þurfi fram auknum aga og aukinni festu. Ef ég hef skilið þetta rétt var í sjálfu frumvarpinu vitnað í tíu ára tímabil þar sem menn höfðu að meðaltali farið 10% fram úr, en menn birtu ekki það sem hefur gerst á síðustu fjórum árum þar sem þetta er miklu, miklu minna og jafnvel í kringum 2–3%, sem betur fer.

Það sem mig langar aðeins að ræða við hv. þingmann og spyrjast fyrir um, vegna þess að hér er birt tafla í áliti minni hlutans um afkomu heilbrigðisstofnana, er hvað af þeim tölum sem þar eru séu eldri skuldir. Ég sé til dæmis að Landspítalinn er færður með um 3 milljarða í rekstrarhalla. Ef ég man rétt, ég var að reyna að fá fyrrverandi ráðherra til þess að hjálpa mér að muna það, er þetta halli sem varð fyrir hrun og hefur verið látinn sitja á stofnuninni en rekstur stofnunarinnar hefur á undanförnum árum verið innan fjárlaga. Ég held að það skipti mjög miklu máli að halda því til haga.

Það var líka notað sem agatæki og aðhaldstæki að gerðir voru samningar við ákveðnar heilbrigðisstofnanir um frystingar á halla — og það átti síðan að fella hann niður — gegn því að viðkomandi stæðist fjárlög. Þar erum við að tala um Suðurnesin, Suðurlandið og raunar Austurland líka og sumt af þessu er meira að segja með formlegum samningum. Mér finnst skipta mjög miklu máli þegar menn ræða þessa málaflokka að þeir geri sér grein fyrir að á einhverju augnabliki þarf að færa þetta út úr bókhaldinu vegna þess að það mun aldrei verða þannig að þessir aðilar beri gamla hallann upp í gegnum fjárlög.