143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir alveg ágæta ræðu, hún var skynsamleg og rökrétt og þingmaðurinn þarf ekkert að óttast andsvör vegna hennar. Hv. þingmaður sagði að þörf væri á aga og velti upp spurningunni hvort þörf væri á fjáraukalögum.

Þegar við lendum í eldgosum og öðru slíku segir sig náttúrlega sjálft að það er erfitt að sjá fyrir í fjárlögum. Síðan er annað sem er líka vandamál í fjárlögum, hvað á að gera ráð fyrir miklum hækkunum í kjarasamningum? Um leið og segir í fjárlagafrumvarpinu að gert sé ráð fyrir 5% hækkun er búið að gefa merki um að hækkun verði að minnsta kosti 5%. Í rauninni verður maður því alltaf að vanáætla kjarasamninga og ýmislegt fleira.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann eðlilegt að það séu mörg fjáraukalög yfir árið? Segjum að eitthvað gerist í febrúar, eldgos, fjárskaði eða eitthvað slíkt, og menn vita strax að það er komin krafa og skynsamlegt væri að setja fjáraukalög strax.