143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugaverð umræða sem hér á sér stað, ekki síst í andsvörunum sem hv. þingmaður kveikti. Ég er algjörlega fylgjandi því að við höfum bókhald og fjárhagsleg málefni hins opinbera eins opin og mögulegt er. Þess vegna var það eitt af mínum fyrstu verkum þegar ég kom inn í fjármálaráðuneytið á síðasta ári að hefja slíka vinnu, þ.e. ég setti á laggirnar starfshóp sem fór í gegnum þetta og sótti einmitt fólk í hina svokölluðu netgrasrót til að vinna því verkefni brautargengi.

Það kom mér á óvart hvað stjórnsýslan var í raun og veru opin fyrir þessu, alveg ótrúlega opin. Það er ekkert að fela. Menn þar hafa mikinn vilja til að gera þetta. Nú vantar hins vegar vilja og pólitíska forustu um þessi verkefni. Þessi vinna hefur algjörlega legið niðri síðan ég fór úr ráðuneytinu og hún á ekki (Forseti hringir.) að hanga bara á persónu þannig að það er spurning hvort við tökum okkur ekki saman um það (Forseti hringir.) að Alþingi álykti um málið.