143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek mjög svo undir þetta. Þeir sem stýra fyrirtækjum og þeir sem geta samið við fólk um kaup bera auðvitað ábyrgð. Þeir bera ábyrgð á því að fólkinu líði vel. Stundum monta fyrirtæki sig af því að það sé góð vinnuaðstaða og annað. Mér finnst ekki hægt að monta sig af því, það er bara sjálfsagt mál, það á að vera svoleiðis. Fyrirtæki eiga að borga góð laun. Það sem ég hef aldrei skilið er að mér finnst margir sem stjórna fyrirtækjum ekki átta sig á því að ef starfsfólkið er ánægt með launin og telur sig sæmilega haldið held ég að fyrirtækið gangi betur. Það er kannski svolítið barnalega ævintýralegt af mér að halda að þetta sé svona, en ég held það samt. Ég held að ánægt starfsfólk sem fær gott kaup vinni betur, og ekki síður ganga fyrirtækin betur ef fólkið í landinu hefur peninga milli handanna vegna þess að fólk kaupir þá meira.

Fyrst og síðast kvarta ég helst yfir því varðandi þá sem reka fyrirtæki í landinu að mér finnst þeir ekki viljugir til að taka þátt í að byggja upp samfélagið, í fyrsta lagi með því að borga ekki almennilegt kaup og í öðru lagi með því að vilja ekki borga skatta þegar þeir eiga fyrir þeim eða því sem ekki eru einu sinni skattar heldur borga fyrir afnot (Forseti hringir.) af okkar eigin auðlind.