143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. forseti ætli að leyfa þessari umræðu að halda áfram. Ég sé að enn eru nokkrir á mælendaskrá, ég held einir fimm, sex hv. alþingismenn. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni sem var hér á undan mér, Svandísi Svavarsdóttur, eru þar greinilega mikilvæg mál sem fólk telur sig þurfa að ræða.

Það er ekkert nýtt að við höldum hér kvöld- og næturfundi þegar kemur fram á þennan tíma. Það verður varla skrifað á þessa ríkisstjórn, eins og reynt er að segja hér, að hún sé verklaus. Hún hefur nú reist stærri skjaldborg um heimilin en fyrri ríkisstjórn tókst á fjórum árum [Kliður í þingsal.] og hefur náð nokkuð góðum árangri þar þannig að það er eðlilegt að einhver mál séu seint komin fram. Það er farið að styttast til jóla og við verðum að nýta tímann vel þannig að ég hvet hæstv. forseta til að halda þessari umræðu áfram og ljúka henni. (Gripið fram í.) Ég er búinn að vera í þinginu í allt kvöld tilbúinn (Forseti hringir.) að taka til máls í þeim málum sem eru síðar á dagskránni sem ég vona að við náum að afgreiða síðar í nótt.