143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[01:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég hef aðeins skoðað foreldraorlofið, en það skiptir máli að vera annars vegar í ólaunuðu orlofi eða launuðu, sérstaklega miðað við það hvernig staða fjölskyldna er í dag, mjög margra a.m.k., og staða þeirra er auðvitað ástæðan fyrir því að nú situr einmitt þessi ríkisstjórn. Í ljósi stöðu fjölskyldna tel ég foreldraorlof án launa ekki vera eitthvað sem við getum horft til, að minnsta kosti ekki í augnablikinu. En það er með það eins og annað að það er að sjálfsögðu í lagi að endurskoða slíka hluti á hverjum tíma.

Ég man eftir því þegar hv. þingmaður var hér á síðasta kjörtímabili, af því að ég fylgist nú gjarnan með Alþingi þó að ég hafi ekki alltaf setið þar, og hann svaraði þannig og var viss um það að ef næsti fjármálaráðherra kæmi frá sjálfstæðismönnum mundi þetta kannski hressast aðeins. Hann reiknaði með því að ýmislegt mundi batna, og ég veit að hann trúir því. Hann ræddi að þá hefðu menn kannski efni á því að gera hvort tveggja, sérstaklega að hækka hámarkið, af því að ég veit að það er það sem hann vill, eins og hann sagði hér áðan. Auðvitað erum við að kljást við skort á fjármunum en þess vegna lögðum við þetta líka fram og höfum rætt það hér og tekist á um að gera hlutina í áföngum. Við getum síðan teygt það til í hversu stórum eða smáum áföngum það er. En ég held að hvort tveggja þurfi til og eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á líka eru mjög margir og allflestir foreldrar útivinnandi og við þurfum í rauninni að finna úrræði að loknu foreldraorlofi eða fæðingarorlofi. Þess vegna er eitt ár lágmarksmarkmið.