143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

viðbrögð AGS við skuldaleiðréttingum ríkisstjórnarinnar.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að fráfarandi fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland var nokkuð gagnrýninn á tillögur ríkisstjórnarinnar í skuldamálum, en það er svo sem ekkert nýtt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lýst sig andsnúinn almennum aðgerðum í skuldamálum undanfarin ár. Ég hef fyrir mitt leyti marglýst þeirri skoðun minni að ég sé algjörlega ósammála þeirri pólitík sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn rekur og hefur því miður ekki reynst heimilunum sérstaklega vel í mörgum ef ekki flestum þeirra landa þar sem hann hefur komið að málum þó að aðkoma hans hafi oft og tíðum reynst fjármálafyrirtækjum ágætlega. Reyndar verð ég nú að viðurkenna að í sumum tilvikum hefur aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haft jákvæð áhrif hvað varðar stöðu ríkissjóðs. Pólitísk stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hins vegar ekkert sérstaklega heppileg fyrir almenna borgara, fyrir heimilin í þeim löndum sem lenda í því að þiggja aðstoð sjóðsins.

Afstaða Seðlabankans er hins vegar mun jákvæðari en ég átti von á, ég skal alveg viðurkenna það. Þótt hv. þingmaður sjái einhverja neikvæðni í athugasemdum bankans þá voru viðbrögð hans núna, svona miðað við það hvernig bankinn hefur fjallað um skuldamál fram að þessu, með besta móti og ástæða til að hrósa bankanum fyrir það.

Í áætlun bankans er reyndar gert ráð fyrir örlítið meiri verðbólguáhrifum en í þeirri greiningu sem sérfræðingahópurinn vann, en það eru ekki veruleg áhrif. Það eru mjög óveruleg áhrif sem hægt er að vinna gegn og það er ekki hvað síst gert með seinni hluta aðgerðanna, þ.e. öðrum áfanga varðandi skattafslátt vegna séreignarsparnaðar. Það virkar í hina áttina þannig að saman virka þessar leiðir og magna upp kosti hvorrar fyrir sig og draga úr ókostunum. Það er hluti af því sem (Forseti hringir.) er svo snjallt við þessa ráðstöfun.