143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var fyrst og fremst að gera athugasemdir við orðaval. Ég minntist ekki orði á að við hefðum ekki skorið niður í heilbrigðisþjónustu. Ég hef ítrekað sagt í ræðustóli: Við skárum gríðarlega mikið niður þar og vorum komin að þolmörkum, enda hættum við niðurskurði fyrir ári síðan og gerðum sameiginlegt ákall um að snúið yrði til baka. Ég fagna því að það er loks gert í 2. umr. um frumvarp að fjárlögum. Það var óþarfi að eyða löngum tíma í að svara þeirri athugasemd því að hún var ekki til staðar í minni ræðu og því engin ástæða til þess. Aftur á móti spurði ég hvernig ætti að fara með hallann á Landspítalanum, af því að það er málefnaleg spurning, og eins af hverju sumar heilbrigðisstofnanir lækka. Við verðum að átta okkur á því að við erum að tala um leiðréttingar á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, hún var 45,5 millj. kr., ef ég man rétt, niðurskurðurinn í frumvarpinu, og hér er verið að skila til baka 35 millj. kr., eftir standa 10 millj. kr. Við skulum ræða þá hluti.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann líka. Nú er allt í einu orðinn til nýr hópur. Við sátum undir ámæli frá Framsóknarflokknum fyrir að vera með hagræðingarhóp síðast sem ekki væri formlegur hópur inni í kerfinu. Hann hefur verið til áður, en látum það liggja milli hluta. Mig langar að heyra hvað af tillögum hagræðingarhópsins sjást í kerfisbreytingum í þessu fjárlagafrumvarpi?

Hér var talað um að ráðuneyti hefðu þanist út. Ég get upplýst að velferðarráðuneytið, þar sem tvö ráðuneyti voru sameinuð, lækkaði í kostnaði um 20% — um 200 milljónir. Það er þetta sem ég á við.

Vöndum okkur svolítið í umræðunni. Við erum með fullt af atriðum sem má gagnrýna frá fyrri ríkisstjórn og við erum ekkert að biðjast undan gagnrýni, við þolum hana ágætlega. Ég hugsa að við séum hvað hörðust sjálf í sambandi við það og erum ekkert að kveinka okkur undan því að gagnrýni komi fram, en við viljum að hún sé málefnaleg og byggð á rökum. Menn telja sér til hróss að bæta hér við 100 milljónum á Selfossi á sama tíma og skornar eru út bæði áætlanir um byggingu og stækkun sjúkrahússins á Suðurlandi (Forseti hringir.) og í Stykkishólmi. Það eru hlutir sem vantar hér inn. En látum vita að það er margt gott sem kemur fram hér.