143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessar spurningar og held að ég deili mjög sambærilegri sýn og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir varðandi þá málaflokka sem þingmaðurinn nefndi. Ég hef mestar áhyggjur af því að fólk missi hreinlega vonina og fari. Þeir sem geta ekki farið upplifa sig sem fasta.

Ég hef áhyggjur af langtímaatvinnuleysi. Mér fannst jákvætt úrræðið Nám er vinnandi vegur og eitthvert eitt annað úrræði sem gekk út á að halda fólki í virkni og ekki bara það, heldur afla sér þekkingar og vera þátttakendur í samfélaginu. Það gerist mjög oft að þeir sem hafa alltaf verið að vinna en verða skyndilega atvinnulausir missa einhvern veginn tilganginn í lífinu. Það hefur verið fasti punkturinn í tilverunni. Það sneri ekkert endilega bara um peninga, heldur að finnast sem maður eigi einhverja hlutdeild og sé þátttakandi í samfélaginu sínu.

Ég sé ekki mikla innspýtingu í öll þessi fyrirtæki. Á Íslandi eru mest lítil og meðalstór fyrirtæki og ég var að vonast til að alvöruslagkraftur og von kæmi með tillögum ríkisstjórnarinnar um forsendubrestsleiðréttinguna. Ég hef ekki fundið fyrir því. Ég finn fyrir áframhaldandi kvíða. Örfáir einstaklingar hafa fundið einhverja gleði, en hún fór síðan þegar útreikningarnir komu. Þeir eru heldur ekki nægilega skýrir. Í þessum fjárlögum er ákveðin undirstaða að skuldaleiðréttingunni og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að áður en við samþykkjum þessi fjárlög — nú er ég búin með tímann, ég held áfram í næsta svari.